Innlent

Bjarni Ben í Ásmundarsal þar sem lögregla leysti upp samkvæmi

Kolbeinn Tumi Daðason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, var staddur í gleðskap í Ásmundarsal sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leysti upp á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Töluverður fjöldi fólks var staddur í Ásmundarsal á Skólavörðuholtinu og þeirra á meðal Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona hans. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í tilkynningu í morgun að lögregla hefði verið kölluð til vegna vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur.

„Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands,“ sagði í tilkynningu lögreglu. Ráðherra var ekki nefndur á nafn. 

Fréttastofa hefur hvorki náð í Bjarna né aðstoðarmenn hans það sem af er morgni þrátt fyrir endurteknar tilraunir. Þá segist Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ekkert þekkja til málsins.

Samkvæmt Facebook-síðu Ásmundarsalar var jólasýning þar opin til klukkan tíu í gærkvöldi, en eins og áður sagði var samkvæmið leyst upp á ellefta tímanum. Hér að neðan má sjá innan í húsakynni salarins.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni sem barst upp úr klukkan 10 er samkvæmið sem leyst var upp í gær til rannsóknar vegna grunsemda um brot á sóttvarnalögum. 

„Málið fer nú til hefðbundinnar rannsóknar hjá embættinu, en frekari upplýsinga um málið er ekki að vænta fyrr en eftir jól eða áramót,“ segir í tilkynningunni.

Fréttin er í vinnslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×