Innlent

63 greind smit tengd hópsýkingunni á Hótel Rangá í sumar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hópsýking kom upp á Hótel Rangá á Suðurlandi í ágúst.
Hópsýking kom upp á Hótel Rangá á Suðurlandi í ágúst. Hótel Rangá

Hópsýking kom upp á Hótel Rangá í ágúst í sumar. Tugir einstaklinga smituðust og þurfti ríkisstjórnin meðal annars að fara í skimun vegna sýkingarinnar.

63 einstaklingar sem greindust með kórónuveiruna í annarri bylgju faraldursins í sumar höfðu bein eða óbein tengsl við hópsýkingunua á Hótel Rangá.

Þetta kemur fram í svari Jóhanns K. Jóhannssonar, samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn Vísis.

Fyrsta smitið greindist þann 16. ágúst að því er segir í svarinu en þann 20. ágúst fyrst greint frá smiti á hótelinu. Þá var sagt frá að starfsmaður þar hefði greinst með veiruna og því var í kjölfarið lokað.

Ríkisstjórnin hafði borðað hádegismat á Hótel Rangá tveimur dögum áður en starfsmaðurinn greindist. Hann hafði þó ekki sinnt ráðherrunum.

21. ágúst var ákveðið að ríkisstjórnin færi í skimun vegna smitsins og viðhefði smitgát þar til niðurstöður lægju fyrir. Enginn ráðherranna reyndist smitaður en hins vegar varð ljóst eftir því sem dagarnir liðu að upp var komin hópsýking í tengslum við Hótel Rangá.

Sá stofn veirunnar sem greindist í sýkingunni var nefndur „græna veiran“ þar sem hann fékk grænan lit hjá smitrakningarteymi almannavarna.

Önnur hópsýking kom upp vegna „grænu veirunnar“ en það var á Akranesi í lok júlí. Fyrsta smitið í þeirri sýkingu greindist 25. júlí og tengdist smitið vinnustað á höfuðborgarsvæðinu.

Alls greindust svo 24 með bein eða óbein tengsl við hópsýkinguna. Með óbeinum tengslum er átt við afleidd smit frá þessari hópsýkingu, það er einstaklinga sem tengjast vinnustaðnum eða hópnum beint, að því er segir í svari almannavarna.

Stofninn ekki greinst síðan 6. október

„Græna veiran“ hefur ekki greinst síðan 6. október en raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur greint veiruafbrigðið í 231 smiti.

Miðað er við að önnur bylgja faraldursins hafi byrjað um miðjan júlí. 216 greindust í þeirri bylgju faraldursins.

15. september er svo upphafsdagur þriðju bylgju faraldursins en um 2.900 manns hafa greinst í þeirri bylgju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×