Fótbolti

Zlatan tókst að pirra sænska landsliðsþjálfarann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er markahæsti leikmaður sænska landsliðsins frá upphafi með 62 mörk.
Zlatan Ibrahimovic er markahæsti leikmaður sænska landsliðsins frá upphafi með 62 mörk. getty/Lars Baron

Janne Andersson, þjálfari sænska landsliðsins, hafði ekkert sérstaklega mikinn húmor fyrir því þegar Zlatan Ibrahimovic gaf í skyn að hann vildi snúa aftur í sænska landsliðið á samfélagsmiðlum fyrr í þessum mánuði. Hann hætti í landsliðinu eftir EM 2016.

Zlatan birti mynd af sér á Instagram í sænsku landsliðstreyjunni og sagði seinna að það hefði verið gert til að pirra Svía. Og það virðist hafa tekist.

„Ég var frekar pirraður. En honum er frjálst að birta það sem hann vill á samfélagsmiðlum,“ sagði Andersson.

Zlatan hefur átt frábært tímabil með AC Milan og er markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni með tíu mörk. Andersson segir að frammistaða Zlatans komi sér ekki á óvart.

„Það er ekki annað hægt en að hrífast af því hvernig hann heldur áfram að sýna hungur, drifkraft og hæfileika. Hann er einstakur og magnaður íþróttamaður. Hann er okkar langbesti leikmaður frá upphafi. Það er ótrúlegt hvað hann hefur afrekað. Þú verður bara að taka ofan fyrir honum og óska honum til hamingju.“

Eins og áður sagði lagði Zlatan landsliðsskóna á hilluna fyrir fjórum árum. Andersson segir að hann hafi ekki lýst yfir áhuga á að snúa aftur í landsliðið.

„Það sem til þarf er að hann vilji vera með. Hann sagði mér skýrt og greinilega 2016 að hann væri hættur og ég hef virt það. Hvað síðasta útspil hans varðar var það bara gert til að pirra fólk. Hann lokaði sjálfur landsliðsdyrunum,“ sagði Andersson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×