Innlent

Tveir snarpir skjálftar í morgunsárið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þetta skjáskot af vef Veðurstofunnar sem tímastillt er klukkan 06:25 sýnir vel þá miklu skjálftavirkni sem verið hefur á Reykjanesskaga síðasta sólarhringinn eða svo.
Þetta skjáskot af vef Veðurstofunnar sem tímastillt er klukkan 06:25 sýnir vel þá miklu skjálftavirkni sem verið hefur á Reykjanesskaga síðasta sólarhringinn eða svo. Veðurstofa Íslands

Um 1700 eftirskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðan í gær þegar jarðskjálfti að stærð 5,6 varð vestan við Kleifarvatn klukkan 13:43.

Stærsti eftirskjálftinn varð laust fyrir klukkan hálffjögur í gær og mældist um fjórir að stærð.

Alls er búið að staðfesta 21 skjálfta sem mælst hafa stærri en þrír en Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að líklega séu þeir fleiri.

Í morgun mældust til að mynda tveir skjálftar í Fagradalsfjalli, annar klukkan 06:05 að stærð 3,7 og sá síðari kl. 06:23 að stærð 3,8. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist í byggð á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð.

Einar segir að hrinunni sé ekki lokið þótt skjálftunum fækki jafnt og þétt. Þá komi þeir svolítið í hviðum.

Veðurstofunni bárust tilkynningar um gaslykt í gærkvöldi í nágrenni Grænavatns á Núpstaðahálsi þar sem upptök stóra skjálftans voru. Einar segir að sérfræðingar Veðurstofunnar muni skoða þessar tilkynningar betur í dag.

Á vef Veðurstofunnar er varað við aukinni hættu á grjóthruni úr bröttum hlíðum á Reykjanesskaga vegna yfirstandandi skjálftavirkni. Er ferðafólk beðið að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum.

Fréttin var uppfærð klukkan 07:35.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×