Innlent

„Eyddum fleiri árum í að auglýsa landið, nú er komið fram við okkur eins og glæpamenn“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigur Rós á sviði.
Sigur Rós á sviði. Getty/Edu Hawkins

Liðsmenn Sigur Rósar segjast vera að íhuga það að flytja frá Íslandi vegna málarekstur íslenskra yfirvalda gegn þeim. Segja þeir að yfirvofandi réttahöld vegna skattamála þeirra hafi orðið til þess að þeir hafi misst trúna á landinu og eru þeir ósáttir við að skattsvikamál þeirra hafi verið sent aftur til héraðsdóms eftir að því var vísað frá.

Fjallað hefur verið um skattsvikamál tónlistarmannanna Jóns Þórs Birgissonar, Kjartans Sveinssonar, Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar í fjölmiðlum frá því það kom upp árið 2018 þegar fregnir bárust af því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir meðlima Sigur Rósar, að kröfu tollstjóra. Varðaði kyrrsetningin eigur þeirra sem metnar voru á tæpar 800 milljónir króna en ástæðan var sögð rannsókn skattrannsóknastjóra á meintum skattalagabrotum.

Tónlistarmennirnir fjórir voru grunaðir um stórfelld skattsvik með því að hafa komist hjá því að greiða ríflega 150 milljónir króna. Auk þeirra var endurskoðandi þeirra ákærður.

Héraðssaksóknari gaf að lokum út ákæru vegna meintra skattsvika og hefur málið verið rekið fyrir dómstólum síðan þá. Málinu var vísað frá héraðsdómi á síðasta ári en lögmaður þeirra gerði kröfu um að málinu yrði vísað frá á grundvelli laga um tvöfalda refsingu. Þeir hefðu þegar greitt sekt vegna málsins.

Yfirvöld áfrýjuðu til Landsréttar sem sendi málið aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar og er nú þess beðið að málið verði teki fyrir að nýju þar.

Sagðir óttast fangelsi

Í viðtali við Guardian sem birtist í morgun segjast fjórmenningarnir hafa misst trúna á Íslandi vegna málsins. Þeir viðurkenni að hafa brotið lög en að þeir hafi þegar greitt fjármunina sem um ræðir til baka, auk sektar og vaxta. Segjast þeir, sem fyrr, ekki hafa vitað af því að bókhald þeirra væri ekki með felldu og að endurskoðanda þeirra sé um að kenna.

Óttast þeir að héraðsdómur kunni að dæma þá til enn hærri sektargreiðslu, allt að tvöfalt hærri en andvirði þess brots sem þeir voru grunaðir um. Í viðtalinu kemur fram að sumir fyrrverandi meðlimir hljómsveitarinnar telji að þeir búi ekki yfir fjármunum til þess að standa undir slíkri greiðslu, og óttist þeir því fangelsi, án þess að tekið fram hverjir viðkomandi séu. Kjartan hætti í hljómsveitinni árið 2013 og Orri Páll árið 2018.

„Við erum ekki að segja að við höfum ekki gert neitt rangt,“ segir Georg Hólm, bassaleikari hljómsveitarinnar. „Við lögðum okkur samt í líma við að greiða úr þessu, komast að því hvað gerðist og borga peningana til baka. En nú er verið að rétta yfir okkur vegna sama máls aftur. Við erum ekki hafnir yfir nein lög á Íslandi, en lögin eru bara ekki rétt.“

Í fréttinni kemur fram að Georg, Kjartan og Orri Páll séu allir að íhuga það að yfirgefa landið vegna meðferðarinnar sem þeir hafi fengið frá yfirvöldum vegna málsins, en Jón Þór hefur búið erlendis að undanförnu.

„Við eyddum fleiri árum í að auglýsa landið, nú er komið fram við okkur eins og glæpamenn,“ er haft eftir Jóni Þór.

Georg segir að málið megi rekja til Gunnars Ásgeirssonar sem var endurskoðandi hljómsveitarinnar og starfaði fyrir PwC.

„Við erum tónlistarmenn, við réðum þá sem við töldum vera þá bestu í heimi. Og hann brást okkur,“ segir Georg.

Lesa má viðtalið í heild sinni hér.

Vísaði til fordæmis Jóns Ásgeirs fyrir dómi

Þegar Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður tónlistarmannanna, rökstuddi kröfu sína um frávísun málsins á síðasta ári fyrir héraðsdómi lagði hann megináherslu á ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um bann við endurtekinni málsmeðferð eða refsingu.

Sagði hann íslenska ríkið hafa í þrígang fengið á sig áfellisdóma hjá Mannréttindadómstól Evrópu í sambærilegum málum, þar á meðal í málum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Bjarna Ármanssonar gegn ríkinu.

Vísaði Bjarnfreður til þess að mál liðsmanna Sigur Rósar hefði verið rannsakað hjá skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og héraðssaksóknara áður en það fór fyrir dóm þegar hann fullyrti að málsmeðferðin hafi verið tvöföld og jafnvel þreföld. Málið hefði tekið meira en þúsund daga frá því að rannsókn á brotum hófst.

Ásmunda B. Baldursdóttir, saksóknari, hafnaði því hinsvegar að þrjú mál sem ríkið tapaði hjá Mannréttindadómstóli Evrópu væru sambærileg við mál liðsmanna Sigur Rósar. Dómarnir sýndu að málsmeðferð í skattrannsóknum á Íslandi brytu ekki gegn ákvæði mannréttindadómstólsins ef þau uppfylltu ákveðin skilyrði, og að þessi skilyrði hefði verið uppfyllt í máli meðlima Sigur Rósar.

Málinu var sem fyrr segir vísað frá héraðsdómi en Landsréttur úrskurðaði síður að héraðsdómur þurfi aftur að málið efnislega fyrir á ný. Er þess nú beðið að málið verði tekið fyrir á ný fyrir héraðsdómi. 


Tengdar fréttir

Mál Sigur Rósar aftur fyrir héraðsdóm

Skattsvikamál fjögurra liðsmanna hljómsveitarinnar Sigur Rósar fer aftur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem þarf að taka málið til efnislegrar meðferðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.