Innlent

Bein útsending: Setning Alþingis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá setningu Alþingis í fyrra.
Frá setningu Alþingis í fyrra. Vísir/Vilhelm

Alþingi verður sett þriðjudaginn í dag og hefst þingsetningarathöfnin klukkan 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Séra Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði og formaður Prestafélags Íslands, predikar og séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Guðbjörg Hilmarsdóttir syngur við athöfnina.

Vegna kórónuveirufaraldursins er aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningarinnar að þessu sinni.

Beina útsendingu af Alþingisvefnum má sjá hér að neðan.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Strengjadúett skipaður þeim Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara leikur „Intermezzo“ úr Dimmalimm eftir Atla Heimi Sveinsson. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 151. löggjafarþing. Þá leikur strengjadúettinn „Eg vil lofa eina þá“ eftir Báru Grímsdóttur. Að því loknu flytur forseti Alþingis ávarp.

Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 15:30 en þá verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 útbýtt.

Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis. Sjónvarpsútsending verður frá þingsetningarfundi á RÚV. Einnig verður útvarpsútsending á Rás 1 frá messu og þingsetningu.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða að kvöldi þingsetningardags, kl. 19:30.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp 2021 og fyrri umræða um fjármálaáætlun verða aðalmál 2. viku þingsins og hefst umræðan mánudaginn 5. október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×