Skoðun

Brott­kast, brott­kast

Svanur Guðmundsson skrifar

Komin er út skýrsla Haf- og vatnarannsókna um mælingar á brottkasti þorsks og ýsu 2016 til 2018. Skýrslan er 11 síður að lengd og reikna skýrsluhöfundar sér til að brottkast á þorski árið 2017 sé um 5.658 tonn. Það er árið sem mest er hent af þorski af öllum þeim árum sem skýrslan tekur til.

Þegar þetta er sagt er sláandi að lesa að svo miklu magni sé hent og þeir aðilar sem ég hef rætt við innan greinarinnar eru slegnir yfir í niðurstöðu skýrslunnar. Satt best að segja skilur enginn hvernig þetta má vera og furða sig á að svo miklu af fiski sé hent. Sérstaklega þegar haft er í huga að þetta tiltekna ár, 2017, gengu þorskveiðar mjög vel og fiskur var mjög stór. Því virðist ástæðulaust að henda fiski, sem menn hafi á annað borð náð um borð, þegar menn eru við veiðar.

En við nánari skoðun á skýrslunni kemur margt ekki fram og vantar í hana nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að bregðast við af hagsmunaaðilum og þeim sem hafa um málið að segja. Hvar eru menn að henda fiski og af hvaða svæðum? Ef við skoðum bara botnvörpuveiðar árið 2017 þá er samkvæmt skýrslunni reiknað með að nærri 4% af þorsk veiddum í troll það ár hafi verið hent. Það þýðir að 4 kör af hverjum 100 hafi farið í sjóinn eftir að búið er að veiða þann fisk. Menn finna fyrir því. Gleymum því ekki að þorskur var mjög vænn árið 2017.

Í skýrslunni kemur fram að 24 reitir af 84 voru teknir til mælinga af starfsmönnum Fiskistofu við útreikninga á brottkasti úr botnvörpu. Fiskistofa aflaði gagnanna og þau voru notuð af starfsmönnum Haf- og vatnarannsókna við gerð þessarar skýrslu. Hvernig úrtakið var valið kemur ekki fram og ekki tekið fram hvort um slembiúrtak hafi verið að ræða á reitum til rannsóknar sem er mikilvægt að vita við úrvinnslu ef verið er að vinna með tölfræði. Ekki er heldur upplýst hvort sá afli, sem skoðaður var um borð í veiðiskipum, hafi verið borinn saman við sömu löndun veiðiskips og með sama poka í báðum tilfellum. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að bátar nota bæði poka með 135mm möskva og 155mm möskva við veiðar. Þannig að ef afli, sem mældur er um borð í veiðiskipi, kemur úr 135 mm poka er borinn saman við afla í landi, sem kemur úr sama veiðiskipi sem hafði notað 155mm poka, þá mælist það sem brottkast. Upplýsingar um þetta er ekki að finna í skýrslunni.

Annað sem ekki kemur fram í þessari skýrslu, er hvernig unnið er úr gögnum úr reitum og hvernig þeir eru bornir saman við afla og hvort afli sem veiddur er á ákveðnum reit sé borinn saman við afla landaður úr viðkomandi reit. Svo ég útskýri þetta nánar þá fylgist Fiskistofa vel með að ekki sé verið að veiða af svæðum þar sem smáfiskur heldur sig. Mælingar eru framkvæmdar af Fiskistofu á hlutfalli smáfisks (þorskur undir 55 cm) og ef hann fer yfir ákveðið hlutfall þá er veiðisvæði lokað. Á sumum svæðum veiðist meir af þorski undir 55 cm og ef afli af þeim reitum er borin saman við afla lönduðum af öðrum reitum þar sem stærri fiskur heldur sig þá er augljóst að minna kemur í land af minni fiski. Það yrði tekið í þessari aðferð sem brottkast á smáfiski.

Eins og áður sagði voru það starfsmenn Fiskistofu sem sáu um gagnaöflun. Ríksendurskoðun tók út starfsemi Fiskistofu og skiluðu skýrslu um hana í desember 2018. Þar var vakin sérstök athygli á nokkrum atriðum og sagði orðrétt „[e]ftirlit stofnunarinnar með brottkasti er veikburða og ómarkvisst. Raunverulegur árangur þess er auk þess á huldu þar sem hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið eða árangursmælingar.“ Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að við mælingar á brottkasti skuli mæla að lágmarki 200 þorska og 200 ýsur í hverri mælingu og jafn margar mælingar í landi af lönduðum afla. Síðar var þessu breytt í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun (sem heitir núna Haf- og vatnarannsóknir) í 100 fiska. Í þessari skýrslu Haf og vatnarannsókna núna er bara talað um 90 fiska í hverri mælingu af hverjum reit. Er augljóst að Fiskistofa er ekki að fara eftir tilmælum og athugasemdum Ríkisendurskoðunar.

Það er ljóst að það verður að kryfja þetta mál og rannsaka mun betur. Það er ólíðandi að menn séu að henda fiski en það er líka slæmt að væna menn um rangindi séu þau ekki til staðar. Ekki er hægt að lesa út úr þessari skýrslu hvernig rannsóknin var framkvæmd og því ómögulegt að meta hana á sanngjarnan hátt, hvað þá að finna út hvar vandinn liggur. Það er ekki nóg að kalla brottkast brottkast og útskýra þá svo ekkert frekar. En starfsmenn Haf og vatnarannsókn treysta sér til að segja að 4% af þorski hafði verið hent við botnvörpuveiðar árið 2017 ásamt mörgum öðrum staðhæfingum sem finna má í skýrslu þessari. En að lokum leifi ég mér að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem segir orðrétt. “Í ljósi þess hversu takmarkað eftirlit stjórnvöld hafa með brottkasti sem og takmarkaðra rannsókna á umfangi þess er vart tilefni til fullyrðinga um umfang brottkasts.”

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×