Skoðun

Hvað varð um nor­ræna traustið?

Hópur formanna norrænu félaganna á Norðurlöndunum skrifar

Kórónaveirufaraldurinn hefur virkað sem vekjaraklukka á norræna samvinnu. Á óvissutímum er það venja að hver og einn lítur sjálfum sér næst og hefur veikleiki norrænnar samvinnu kristallast í skorti á samræmdum aðgerðum stjórnvalda. En þetta er ekki í fyrsta skipti því það var einnig raunin í flóttamannakrísunni haustið 2015.

Traust milli manna og traust á stjórnvöldum hefur verið eitt af grunngildum norrænns samfélags og verið einkennandi fyrir löndin. Samkvæmt skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá árinu 2017 er traust gull Norðurlanda. Traust norrænna íbúa á stjórnvöld síns lands eru svo sannarlega fyrir hendi og hefur berlega komið í ljós frá því Covid – 19 faraldurinn braust út en um leið hefur skortur á trausti milli íbúa og stjórnvalda Norðurlandanna orðið áberandi.

Ummæli stjórnmálamanna og annarra sem koma að opinberum ákvörðunum, svo ekki sé minnst á skoðanaskipti á samfélagsmiðlum er dapurleg lesning og fjarvera norrænnar samvinnu áberandi.

Hvernig byggjum við upp traust og samheldni aftur

Forsætisráðherrar Norðurlanda kynntu haustið 2019 nýja framtíðarsýn sem þeir ásamt Norrænu ráðherranefndinni unnu og gildir til ársins 2030. Framtíðarsýnin um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims var vissulega kynnt fyrir kórónuveirufaraldurinn en engu að síður er vert að rifja upp þrjár meginstoðir hennar.

  1. Græn Norðurlönd. Saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.
  2. Samkeppnishæf Norðurlönd. Saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
  3. Félagslega sjálfbær Norðurlönd. Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.

Markmiðin eru í sjálfu sér lofsverð en faraldurinn hefur sýnt fram á mikla bresti í samstarfinu og í dag virkar framtíðarsýnin sem hjómið eitt. Til að hægt sé að endurvekja trú á sameiginleg gildi þarf að styrkja samstarfið víða og ekki síst á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem aftur þýðir miklar breytingar á fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fyrstu breytingarnar á fjárhagsáætlun áranna 2021 – 2024 hafa þegar verið kynntar með niðurskurði til mennta- og menningarmála um 23% sem eiga að færast yfir til umhverfismála.

Niðurskurðurinn á að gerast í skrefum en á þeirri leið minnkar framlag til samstarfs í menningu um allt að 2 miljarða (12 miljónir evra) og menntamála um 750 miljónir (4,7 miljónir evra). Framlag til umhverfismála eykst um 1,2 miljarða (7,2 miljónir evra).

Niðurskurðurinn sem kemur harðast niður á menningarmálum er réttlættur með því að þrátt fyrir hann verður aðaláhersla norrænnar samvinnu áfram menntun og menning. Þetta rímar illa við þá meginstoð framtíðarsýnarinnar um „Félagslega sjálfbær Norðurlönd“ þar sem norræn menning hefur verið eitt helsta sameiningartákn Norðurlanda í yfir 100 ár.

Frá stofnun Norrænu félaganna árið 1919 hafa Norðurlöndin glímt við ýmiss vandamál og áskoranir og nálgast á mismunandi hátt sbr. varnarmál og efnahagsmál en félagslegi þátturinn hefur einkennst af sameiginlegri sögu og sameiginlegri menningu.

Mitt í kórónuveirufaraldrinum er það ekki ákjósanlegt að veikja þær grunnstoðir sem þó halda okkur saman. Ef skilningur og þekking á hvert öðru minnkar getur orðið erfitt að koma sér saman um áherslur á nýjum vettvangi. Framlag til umhverfismála eykst og er það vel en það má ekki gerast á kostnað menningar- og menntamála.

Sú áhætta sem tekin er með minni áherslu á samnorræn mennta- og menningarmál getur haft veruleg áhrif í för með sér og hætta er á að norrænt samstarf verði aldrei samt og það án þess að tryggt sé að samstarf í umhverfis- og loftslagsmálum skili miklu þegar til lengri tíma er litið.

Framtíðarsýn um græn Norðurlönd er mjög metnaðarfull og er það vel. Að sama skapi verður kostnaðurinn mikill og miklu meiri en fjárhagur Norrænu ráðherranefndarinnar ræður við. Ljóst er að til að hægt sé að hrinda verkefnum um grænar lausnir í samgöngum og ferðamáta þarf að koma til auka fjárframlag frá hverju landi fyrir sig.

Sýnin um græn Norðurlönd er langtímamarkmið og verður best náð með samstafi við Norræna fjárfestingabankann og dótturfélag hans Nefco en þar er að finna mikla og farsæla reynslu þegar kemur að fjárfestingum í grænum verkefnum.

Nauðsynlegt er að byggja upp traust milli landanna á ný en til þess að það gerist þarf markvisst að efla sameiginleg verkefni til þess að styrkja norrænt samstarf. Norrænu félögin eru framkvæmdaraðili þriggja mikilvægra verkefna:

  • Nordjobb – (vinnur að því að auka hreyfanleika á norræna vinnumarkaðnum og að auka þekkingu á tungumálum og menningu á Norðurlöndunum meðal ungmenna.)
  • Norden i skolan – (er frír kennsluvefur á 5 tungumálum, sem gefur kennurum og nemendum á Norðurlöndum einstakt fækifæri til að efla skilning barna og ungmenna á Norðurlöndum og nágrannamálunum dönsku, norsku og sænsku.)
  • Norræna bókmenntavikan – (leggur áherslu á að kynna og vekja áhuga á norrænum bókmenntum)

Öll þessi verkefni eru fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og eru hluti af þriggjablaða smára sem styrkir samskipti Norðurlanda á sviði hreyfanleika, tungumálaskilnings og menningarlæsi. Nú stendur til að Norræna bókmenntavikan verði alveg strikuð út úr fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2021.

Í stað þess að skera niður fjármagn ætti að styrkja norrænt samstarf á eftirtöldum sviðum:

  • a) Hreyfanleiki á milli landanna sem gefur ungmennum tækifæri til að kynnast nágrannalöndunum á eigin skinni
  • b) Menningar- og menntamál sem hefur mikla þýðingu fyrir einstaka hópa og allan almenning til að hægt sé að ná því markmiði að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæð heims.

Eitt ætti ekki að útiloka annað og því engin ástæða til að framlag til ofangreindra þátta komi niður á umhverfis- og loftslagsmálum.

Norrænt samstarf þarfnast frekari fjármagns en ekki niðurskurðar. Fjármagn Norrænu ráðherranefndarinnar hefur minnkað síðustu áratugi samanborið við vöxt landsframleiðslu norrænu landanna, í raun er fjármagnið helmingi minna nú en það var fyrir nokkrum áratugum.

Vettvangur aukins samstarfs er til staðar. „Norrænu perlurnar“ sem hýsa menningarsamstarf milli landanna s.s. Hanaholmen í Finnlandi, Biskops Anrö í Svíþjóð, Voksenåsen og Lysebu í Noregi og Schæffergården í Danmörku eru tilvalin vettvangur til aukins menningarsamstarfs. Þar að auki eru menningastofnanir Norrænu ráðherranefndarinnar að finna í Reykjavík, Helsinki, Maríuhöfn, Þórshöfn og Nuuk. Norrænu félögin eru með virkar deildir og starfssemi á öllum þessum stöðum.

Það er engin ástæða til að finna upp hjólið á nýtt. Markmiðin eru skýr og í forgangi ætti að vera að byggja upp traust milli Norðurlandanna og Sjálfstjórnarsvæðanna á því sem við eigum sameiginlegt og stuðla að auknum skilningi á því sem skilur okkur að.

Hrannar Björn Arnarsson, formaður Sambands Norrænu félaganna og Norræna félagsins á Íslandi

Marion Pedersen, formaður Norræna félagsins í Danmörku

Åsa Torstensson, formaður Norræna félagsins í Svíþjóð

Juhana Vartiainen, formaður Norræna félagsins í Finnlandi

Rune Mørck Wergeland, formaður Norræna félagsins í Noregi

Turid Christophersen, formaður Norræna félagsins í Færeyjum

Majken Poulsen Englund, formaður Norræna félagsins á Álandseyjum

Jens Kristian Øvstebø, formaður Ungmennasambands Norrænu félaganna



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×