Erlent

Versta út­reið flokks Merkel í sam­bands­lands­kosningum

Kjartan Kjartansson skrifar
Katharina Fegebank, odddviti Græningja og varaborgarstjóri Hamborgar, (t.v.) og Annalena Baerbock, formaður flokksins, fögnuðu úrslitunum í gærkvöldi.
Katharina Fegebank, odddviti Græningja og varaborgarstjóri Hamborgar, (t.v.) og Annalena Baerbock, formaður flokksins, fögnuðu úrslitunum í gærkvöldi. AP/Kay Nietfield/DPA

Græningjar eru taldir helstu sigurvegarar í sambandslandskosningum í Hamborg þar sem Kristilegi demókrataflokkur (CDU) Angelu Merkel kanslara hlaut sína verstu útreið frá upphafi um helgina. Öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) tapaði fylgi en gæti enn náð fólki inn á sambandsþingið.

CDU er í leiðtogakreppu eftir að Annegret Kramp-Karrenbauer sagði af sér fyrr í þessum mánuði. Henni hafði verið stillt upp sem arftaka Merkel sem hefur leitt flokkinn um árabil. Bráðabirgðatölur benda til þess að CDU sé aðeins þriðji stærsti flokkurinn í Hamborg með um 11% atkvæða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Paul Ziemiak, aðalritari CDU, vísar til afsagnar Kramp-Karrenbauer og hneykslismáls þar sem fulltrúar flokksins í Þýringalandi tóku höndum saman við fulltrúa AfD um kjör á forseta sambandslandsins. Sagði hann daginn „beiskan“ fyrir flokkinn.

Sósíaldemókratar (SPD) héldu velli sem stærsti flokkurinn í Hamborg með um 39,1% atkvæða þrátt fyrir að þeir töpuðu um sex prósentustigum frá kosningunum árið 2015. Græningjar unnu mikið á og fengu um 24,1% atkvæða. Líklegt er að flokkarnir vinni áfram saman í sambandslandsstjórn.


Tengdar fréttir

Segir af sér vegna stuðnings öfgaflokks

Leiðtogi Frjálsra demókrata í Þýringalandi, þar sem áður var Austur-Þýskaland, fór í dag fram á nýjar kosningar og sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að þingið samþykkti skipan hans óvænt í gær. Stuðningur öfgaþjóðernishyggjuflokksins AfD við skipanina réði úrslitum og vakti afar hörð viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×