Innlent

Ferja bíl­­­stjóra að yfir­gefnum bílum á Sól­heima­sandi eftir nótt í fjölda­hjálpar­­­stöð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vegum var víða lokað á Suðurlandi í gær. Mynd er úr safni.
Vegum var víða lokað á Suðurlandi í gær. Mynd er úr safni. Vísir/vilhelm

Um hundrað manns gistu fjöldahjálparstöð að Heimalandi undir Eyjafjöllum í nótt. Langflestir sem gistu í stöðinni festu bíla sína á Sólheimasandi en björgunarsveitir munu ferja bílstjóra að bílum sínum með morgninum.

Björgunarsveitir á Suðurlandi og Suðurnesjum voru önnum kafnar í nótt. Veður var afar slæmt og færð jafnvel enn verri. Tugir bíla sátu fastir á Sólheimasandi og voru ökumenn og farþegar fluttir í fjöldahjálparstöðina.

Sjá einnig: Komu ökumönnum til bjargar í alla nótt

Árný Hrund Svavarsdóttir sjálfboðaliði Rauða krossins hefur haldið utan um fjöldahjálparstöðina síðan í nótt. Hún segir í samtali við Vísi að staðan sé góð, allir vaknaðir og hafi sofið vel.

„Björgunarsveitarmenn ætla nú að ferja bílstjóra að Sólheimasandi að bílunum, allir vilja komast af stað.“ Bílstjórarnir muni svo sækja sína farþega í fjöldahjálparstöðina.

Árný segir að flestir í stöðinni séu erlendir ferðamenn en tveir eða þrír Íslendingar hafi einnig gist í nótt. Þá komu um tuttugu manns með rútu sem komst ekki leiðar sinnar vegna vegalokana á Suðurlandi í gærkvöldi. 38 manns fengu jafnframt inni að gömlu heimavistinni að Skógum í nótt vegna veðurs og færðar.

„Núna erum við að fara í það að tala við fólkið og tilkynna þeim að bílstjórarnir verði ferjaðir að bílunum,“ segir Árný.

„Það er ekkert svakalega hvasst lengur en komin bullandi snjókoma.“ Vonir standa til að allir verði komnir aftur af stað á ellefta tímanum.


Tengdar fréttir

Nóg að gera hjá björgunarsveitum

Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum í dag og í kvöld vegna veðurs og ófærðar víða um sunnanvert landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×