Innlent

Fjórtán útköll í Eyjum: Þak losnaði nánast í heilu lagi

Samúel Karl Ólason skrifar
Páley segir ansi marga Vestmanneyinga eiga erfitt með að sofa í óveðrinu.
Páley segir ansi marga Vestmanneyinga eiga erfitt með að sofa í óveðrinu. Tigull.is

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir lögregluna í Vestmannaeyjum hafa sinnt minnst fjórtán verkefnum vegna óveðursins í nótt. Þau hafi verið misstór en allt hafi gengið vel. Alvarlegasta verkefnið hafi verið þegar þak losnaði af húsi og þá „nánast í heilu lagi,“ eins og Páley orðaði það.

„Þessi átt fer svo sem betur með okkur en áttin sem við vorum með í desember. Þá var norðvestan en við austanáttin fer betur með okkur. Við erum með 43 m/s í stöðugum vindi og 57 m/s í hviðum,“ segir Páley.

Hún segir miklu muna á spám og raunverulega veðrinu. Þar muni jafnvel níu til tíu metrum á spánni og því sem raungerist. „Það munar miklu og við höfum séð það áður.“

Páley segir ansi marga Vestmanneyinga eiga erfitt með að sofa í óveðrinu. Mikill hávaði trufli fólk og hamagangurinn sé mikill.

Varðandi það hvenær þau búist við að taki að lægja í Vestmannaeyjum segir Páley erfitt að segja til um það. Fyrir fram hafi verið búist við hámarki á milli klukkan fimm og sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×