Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fjölnir 33-23 | Valsmenn á toppinn

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Magnús Óli fer í gegnum vörn Fjölnis.
Magnús Óli fer í gegnum vörn Fjölnis. vísir/bára

Valur er komið á toppinn í Olís deildinni eftir öruggan 10 marka sigur á Fjölni á Hlíðarenda í kvöld, 33-23. Fjölnir leiddi lengst af í fyrri hálfleik en misstu heimamenn frá sér áður en flautað var til hálfleiks og munurinn þá fjögur mörk, 16-12. 

Valsmenn voru smá tíma að finna taktinn og náðu ekki forystu fyrr en á 25 mínútu, 12-11. Það verður þó ekki tekið af Fjölni að þeir gerðu vel í upphafi leiks og nýttu sér það að Daníel Freyr Andrésson var ekki að verja vel. 

Um leið og vörnin þéttist þá fylgdi markvarslan með og Valsmenn voru óstöðvandi eftir það. Heimamenn unnu síðastu tíu mínútur fyrri hálfleiks, 7-1 og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 16-12. 

Valur mætti af krafti út í síðari hálfleikinn, þeir komust í sjö marka forystu á fyrstu fimm mínútunum og héldu áfram að bæta við mörkum. 10 marka múrinn náðist þegar 10 mínútur voru eftir Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði 28 mark Valsmanna en hann skoraði 5 mörk í leiknum og var góður að vanda í vörninni. 

Leiknum lauk með 10 marka sigri Vals, 33-23, en Valur tryggði sér um leið topp sæti deildarinnar en Fjölnir situr enn í neðsta sætinu með aðeins 5 stig eftir 18 umferðir. 

Af hverju vann Valur?  

Valur er í efsta sæti deildarinnar og Fjölnir í því neðsta, það segir nokkurveginn af hverju Valur vann þennann leik. Fjölnir byrjaði leikinn ágætlega en um leið og Valur náði upp sínum takti þá var ekki aftur snúið, þeir keyrðu yfir gestina og voru yfir í öllum aðgerðum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Freyr Andrésson var í smá tíma í gang en eftir að hann hrökk í gang þá var frábær, hann endaði með 14 varða bolta, 40% markvörslu. Magnús Óli Magnússon átti virkilega góðan leik, hann var markahæstur Valsmanna með 8 mörk en Stiven Tobar Valenica og Anton Rúnarsson voru honum næstir með 7 mörk hvor og virkilega góðan leik. 

Bergur Elí Rúnarsson var atkvæðamestur gestanna með 6 mörk en Brynjar Loftsson átti einnig fínan leik með 5 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Þetta var mjög erfitt sóknarlega hjá Fjölni og seinni hálfleikurinn heilt yfir virkilega slakur. Þeir töpuðu alltof mörgum boltum, létu stela af sér ótal sendingum og klúðruðu þeim mun fleiri dauðafærum. Þeir áttu góðar 20 mínútur, sem er ekki nóg í 60 mínútna leik. 

Hvað er framundan? 

Bæði lið eiga næst leik á sunnudaginn, 23 febrúar, þá mætir Valur ÍR í Austurbergi en Fjölnir fær annað erfitt verkefni þegar liðið tekur á móti ÍBV í Dalhúsum. 

Kári Garðarsson fer yfir málin með sínum mönnum í kvöld.vísir/bára

Kári Garðars: Við erum ekki fallnir ennþá samkvæmt þessari blessuðu tölfræði

Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, var ánægður með byrjunina á leiknum en sagði að þetta hafi orðið erfitt í síðari hálfleik

„Við byrjuðum leikinn vel, ég var ángæður með það. Við vorum þremur mörkum yfir á tímabili og náðum góðum 20 mínútum. Svo ná þeir fjögurra marka forskoti inní hálfleikinn og bættu í það inní seinni hálfleikinn“

„Fljótlega í seinni hálfleik var ljóst í hvað þessi leikur væri að fara“ sagði Kári 

„Við fórum með alltof mikið af færum og loksins þegar við náðum að skapa okkur eitthvað, sem var mjög erfitt, þá var erfitt að sjá boltann ekki enda inni“ sagði Kári sem bætir því við að Daníel Freyr Andrésson hafi verið að verja vel og gert þeim erfitt fyrir

Fjölnir er í neðsta sæti deildarinnar og líkurnar ekki miklar á því að þeir verði í Olís deildinni að ári. Kári bendir á að tölfræðilega séð eru þeir ekki fallnir og stefnan er sett á sigur í næsta leik

„Við eigum ÍBV næst, það er næsta verkefni. Við erum ekki fallnir ennþá samkvæmt þessari blessuðu tölfræði. Við þurfum bara að mæta í þann leik og gera eins vel og við getum. Við unnum þá í fyrri umferðinni það hlýtur að verða bara framhald af því“ sagði Kári bjartsýnn á næsta leik gegn ÍBV

Magnús Óli og Steven voru í stuði.vísir/bára

Snorri Steinn: Þetta er svo langt frá því að vera komið, megum alls ekki fara frammúr okkur

„Það er alltaf gaman að vinna leiki og ég er mjög ánægður með þennann leik“ sagði þjálfari Vals, Snorri Steinn Guðjónsson

„Ég er ánægður með að hafa unnið stórann sigur, auðvitað var byrjunin ekkert frábær hjá okkur. Ég segi ekki að ég hafi búist við því beint, en ég bjóst kannski við smá ströggli. Við vorum nátturlega í Evrópukeppninni og það getur verið erfitt að spila marga leiki á fáum dögum, en við gerðum það vel“ sagði Snorri Steinn

„Við vorum ekki nógu þéttir varnarlega til að byrja með og Danni var seinn í gang. Enn svo fór þetta bara að tikka og ég var ánægður með það hvernig við mættum út í seinni hálfleikinn. Ég lagði áherslu á það að byrja seinni hálfleikinn af krafti, við gerum það og fljótlega gerðum við útum leikinn“ 

Valur náði með sigrinum í kvöld topp sæti deildarinnar nú þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir. Snorri segir að leikmenn megi ekki fara frammúr sér, deildarmeistara titillinn er ekki í höfn.

„Við eigum ÍR á sunnudaginn, það er gríðalega erfiður leikur. Það er frábært lið og frábær þjálfari svo það verður mjög verðugt verkefni, lengra nær ekki prógrammið hjá mér“

„Það er vissulega ánægjulegt að vera með þettat í okkar höndum samt“ sagði Snorri Steinn, gríðalega ánægður með stöðuna á liðinu í dag

„Enn þetta er svo langt frá því að vera komið, við megum alls ekki fara frammúr sjálfum okkur. Það hefur ekki virkar fyrir neinn og virkar alls ekki fyrir okkur“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira