Viðskipti innlent

Hætta við byggingu gagna­vers á Hólms­heiði

Atli Ísleifsson skrifar
Síminn fékk lóðarvilyrði fyrir gagnaver á nýju athafnasvæði á Hólmsheiði.
Síminn fékk lóðarvilyrði fyrir gagnaver á nýju athafnasvæði á Hólmsheiði. vísir/vilhelm

Fjarskiptafyrirtækið Síminn hefur ákveðið að hætta við byggingu gagnavers á Hólmsheiði. Félagið fékk á vordögum 2017 samþykkt hjá Reykjavíkurborg vilyrði fyrir lóðir undir gagnaver á nýju athafnasvæði við Hólmsheiði.

Borgarráð hins vegar ákvað í síðustu viku að afturkalla lóðarvilyrði til félagsins eftir að Síminn tilkynnti borginni að fallið hafi verið frá fyrirhuguðum áætlunum eftir breytingar á deiluskipulagi.

Í bréfi borgarráðs kemur fram að Símanum hafi á sínum tíma verið veitt hefðbundið lóðarvilyrði fyrir byggingu á allt að átta þúsund fermetra gagnaveri. Þá hafi einnig verið veitt tímabundið vilyrði fyrir allt að 10 þúsund fermetra gagnaveri gegn greiðslu. Þetta vilyrði gæti mest gilt í sex ár.

Morgunblaðið hefur eftir Gunnari Fjalari Helgasyni, framkvæmdastjóra hjá Símanum, að ákvörðunin um að hætta við byggingu gagnavers á Hólmsheiði sé ekki ný af náinni. Eftir kostnaðarmat hafi verið ákveðið að semja frekar við gagnaver Verne Global á Ásbrú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×