Viðskipti innlent

Íslenskt app mun stórefla öryggi í heimahjúkrun

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá bás Origo á Læknadögum sem haldnir eru í Hörpu í þessari viku.
Frá bás Origo á Læknadögum sem haldnir eru í Hörpu í þessari viku.

Origo vinnur að nýju appi sem stórauka á öryggi í heimahjúkrun. Appið, sem nefnist Smásaga frá Origo, gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að skrá sjúkragögn í gegnum snjalltæki og þannig koma í veg fyrir rangar skráningar og að gögn glatist, samkvæmt tilkynningu.

„Flest sjúkragögn eru á stafrænu formi en þó er enn verið að skrá sjúkragögn á pappír í einhverjum tilfella. Á legudeildum og í heimahjúkrun skráir starfsfólk hjá sér ýmsa þætti, svo sem framvindu meðferða og mælingar sem eru prentaðar út og skráðar í Sögu sjúkraskrá. Þessi aðferð getur orðið til þess að gögn séu ranglega skráð, þau tvískráð eða þau geta einfaldlega glatast,“ segir Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo.

Hægt verður að skoða gögn og myndir sem settar eru inn með Smásögu í Sögu á rauntíma. Sömuleiðis verður hægt að taka myndir af áverkum og sárum, skjölum eða myndir af sjúklingum og senda þær í Sögu án þess að tækið geymi myndirnar eða önnur viðkvæm gögn.

„Fyrsta Smásögu appið, Smásaga Heimahjúkrun, er tilbúið. Þá er Smásaga Legudeild í vinnslu og mun fara í notkun síðar á árinu. Þessi nýjung mun gjörbreyta vinnuumhverfi heilbrigðisstarfsfólks þar sem allar upplýsingar verða aðgengilegri og skráning sjúkragagna verður fljótleg og einföld. Þar með hefur heilbrigðisstarfsfólk meiri tíma til að sinna sínum skjólstæðingum og getur veitt þeim enn betri þjónustu,“ segir Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×