Erlent

Íbúar tíu borga Kína í ferðabanni

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Mikill viðbúnaður er víða í Kína.
Mikill viðbúnaður er víða í Kína. AP/Mark Schiefelbein

Kínverjar hafa lagt ferðabann á íbúa átta borga til viðbótar við þær tvær sem lokað var í gær til að reyna að hefta útbreiðslu Wuhan veirunnar sem nú geisar í landinu. Allar eru borgirnar í Hubei héraði í miðhluta Kína þar sem veiran virðist hafa átt upptök sín. 26 hafa látið lífið vegna veirunnar.

Í gær lét maður lífið af völdum veirunnar í næsta héraði, Hebei, en það var í fyrsta sinn sem dauðsfall verður utan Hubei. Og síðar um daginn var annað dauðsfall utan Hubei einnig staðfest í héraðinu Heilongjiang, sem er við rússnesku landamærin og í meira en tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá Wuhan.

830 tilfelli veirunnar hafa nú verið staðfest og með ferðabanninu vilja yfirvöld reyna að hefta útbreiðslu smitsins á þessari mestu ferðahelgi ársins hjá Kínverjum sem halda nú upp á áramót. Samkvæmt AP fréttaveitunni nær ferðabannið nú yfir um 25 milljónir manna.

Fyrir utan Wuhan hefur ferðabann verið sett á í Ezhou, Huanggang, Chibi, Qianjiang, Zhijiang, Jingmen og Xiantao.

Gripið hefur verið til aðgerða víða um Kína. Til dæmis hafa flestir viðburðir vegna áramótanna verið felldir niður í Peking, höfuðborg landsins, og vinsælum ferðamannastöðum verður lokað.

Lang flest tilfellin hafa greinst í Kína. Tveir eru smitaðir í bæði Suður-Kóreu og Japan. Þá hafa smit greinst í Hong Kong, Macao, Taívan, Bandaríkjunum, Taílandi, Singapúr og Víetnam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×