Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Valur 89-91 | Annar sigur Valsmanna á Stólunum í vetur

Jóhann Helgi Sigmarsson skrifar
Austin Magnus Bracey skoraði 32 stig á Króknum.
Austin Magnus Bracey skoraði 32 stig á Króknum. vísir/bára

Það var boðið upp á æsispennu í Síkinu í kvöld þegar Valur kom í heimsókn. Þeir unnu fyrri leik liðanna með tveimur stigum eftir framlengingu og ekki var spennan síðri í kvöld. Eftir jafnan leik þar sem 10 sinnum var jafnt og mesta forysta liðanna var 6 stig hafði Valur aftur tveggja stiga sigur, 89–91.

Langstigahæstur í kvöld var Austin Bracey í Val með 32 stig og næstur honum var PJ Alawoya með 22 stig og 13 fráköst. Þá átti Pavel Ermolinskji ágætis leik með 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Stigaskorið skiptist jafnar hjá heimamönnum en þar var Sinisa Bilic með 20 stig og nýi maðurinn Deremy Geiger skilaði 18 stigum.

Þessi sigur Valsmanna kemur þeim úr fallsæti þar sem þeir eru komnir með 10 stig, en Þór Akureyri sem tapaði í kvöld er enn með 8 stig. Eiga reyndar leik til góða gegn KR. Framundan er reyndar erfiðir leikir hjá Val þar sem þeir mæta Keflavík, Njarðvík og Stjörnunni. Tindastóll er áfram með 18 stig eins og þrjú önnur lið og gætu misst KR upp fyrir sig ef þeir vinna leik sinn gegn Þór.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega, en liðin voru aðallega að skora þrista. Hraðinn jókst svo þegar á leikinn leið. Stólarnir náðu smá rispu undir lok fyrsta leikhluta og höfðu 4ja stiga forskot að honum loknum.

Munurinn varð aldrei mikill í öðrum leikhluta. Valur komst í 31–35 um hann miðjan, en eftir leikhlé sem Baldur tók, komu Stólarnir til baka og jöfnuðu og var leikurinn síðan jafn út leikhlutann. Staðan í hálfleik 47–47. Austin Bracey setti 17 stig í fyrri hálfleik og var með 100% skotnýtingu utan af velli. Hafði aðeins klikkað á einu vítaskoti. Bæði lið voru að hitta vel úr þriggja stiga skotum og meirihluti stiga beggja liða kom úr slíkum skotum í fyrri hálfleik.

Valsmenn leiddu svo til allan þriðja fjórðung þó munurinn yrði aldrei mikill. Raggi Nat átti góðan kafla í leikhlutanum, fór mikinn á báðum endum vallarins og skoraði 9 stig í leikhlutanum. Staðan 72–74 að honum loknum og útlit fyrir spennandi loka fjórðung.

Mikil barátta einkenndi síðasta leikhlutann og leikmenn hentu sér á alla lausa bolta. Mestur varð munurinn fjögur stig þegar Axel Kárason skoraði þrist fyrir Tindastól í stöðunni 78–74. Eftir það var nánast jafnt á öllum tölum.

Sinisa Bilic kom Tindastól yfir 89–88 þegar 49 sekúndur voru eftir og fékk svo tækifæri til að koma þeim þremur stigum yfir þegar 30 sekúndur voru eftir, en hitti ekki. Í staðinn skoraði Sharabani tvö stig fyrir Val og Baldur tók leikhlé fyrir Tindastól þegar tæp mínúta var eftir og Stólarnir einu stigi undir.

Pétur Rúnar reyndi þriggja skot þegar skammt var eftir en skotið geigaði og Valsmenn náðu frákastinu. Stólarnir náðu ekki að brjóta á þeim fyrr en rúm ein sekúnda var eftir. Það var svo vel við hæfi að Austin Bracey skoraði síðasta stig leiksins úr örðu vítinu og Valssigur staðreynd, 89–91.

Af hverju vann Valur?

Sóknarleikur Vals var ágætur lengstum og þá sérstaklega hjá Austin Bracey. Þá var meiri barátta og jákvæðni í liðinu heldur en í undanförnum leikjum. Einnig náðu þeir fleiri fráköstum heldur en heimamenn.

Hverjir stóðu uppúr?

Það bar einn leikmaður af í kvöld ef litið er á stigaskor, en Austin Bracey skilaði 32 stigum fyrir Valsmenn. Þá átti Alawoya góðan leik með 22 stig og 13 fráköst. Hjá Tindastóli var Bilic með 20 stig og nýi maðurinn Deremy Geiger setti 18 stig í frumraun sinni.

Hvað gekk illa?

Vörn heimamanna réði alls ekki við Bracey í kvöld. Auk þess töpuðu þeir frákastabaráttunni. Eftir góðan fyrri hálfleik hjá Brodnik þar sem hann skilaði 13 stigum náði hann sér ekki á strik í þeim síðari og munar um minna.

Hvað gerist næst?

Valur á erfitt leikjaprógramm framundan þegar þeir mæta Keflavík, Njarðvík og Stjörnunni. Tindastóll fer hinsvegar í heimsókn til nágranna sinna í Þór Akureyri, en Stólarnir unnu þá í bikarnum í vikunni með 30 stigum á heimavelli, svo líklega verða Þórsarar í hefndarhug.

Ágúst hrósaði baráttuhug og samstöðu sinna manna.vísir/bára

Ágúst: Gerir rútuferðina heim betri

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, var spurður hvort þessi sigur hafi ekki verið sætur?

„Já, þetta var virkilega sætt og gerir rútuferðina heim betri.“

Hvað skóp þennan sigur í kvöld hjá ykkur?

„Það var margt, frábær barátta meiri hlutann af leiknum og meiri samstaða í liðinu. Síðan var Austin náttúrulega frábær í stigaskorinu. Vorum einnig sterkir varnarlega í fjórða leikhlutanum. Það var eitt augnablik í leiknum þar sem Tindastóll virtist vera að taka yfir leikinn en við svöruðum því vel. Pavel róaði okkur niður og við náðum yfirhöndinni aftur.“

Spurður út í næstu leiki Vals þar sem þeir mæta þremur af fjórum efstu liðunum sagði Ágúst að þessi sigur þar sem þeir mættu vel mönnuðu liði Tindastóls á sterkum heimavelli gæfi þeim náttúrulega aukið sjálfstraust.

„En við þurfum náttúrulega að horfa á einn leik í einu, við gleðjumst yfir þessum sigri í kvöld og síðan förum við að einbeita okkur að næsta leik.“

Þið hafið viljað bogna í leikjum undanfarið, sérstaklega í lok leikja.

„Já, stundum lítur það út eins einhver þreytumerki eða einhver vanmáttur, en við vorum mjög sterkir í kvöld og ættum að geta notað þann byr með okkur i næsta leik.“

Baldur var ekki ánægður með varnarleik Stólanna í kvöld.vísir/bára

Baldur: Mjög sárt tap

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur í leikslok.

„Já, bara mjög sárt tap og mjög leiðinlegt.“

Hvað var að klikka í leik ykkar í kvöld?

„Við náum bara ekki að stoppa boltaskrín hjá P.J. og Naor allan leikinn og það er kannski það sem er að fara með okkur hérna og svo spilar Bracey eiginlega fullkomin leik. Þetta var það sem við vorum að ströggla við allan leikinn.“

Sóknarleikur ykkar var ágætur, en vörnin var greinilega ekki nógu góð?

„Já, við réðum ekki við þetta boltaskrín og fundum enga lausn á því í kvöld.“

Aðspurður hvort þetta hafi ekki verið leikur sem Tindastóll hefði átt að vinna á heimavelli, þá játti Baldur því og sagði „Við ætlum að vinna alla leiki á heimavelli og þetta er því mjög sárt tap.“

Setur þetta ekki strik í reikninginn í baráttunni um efstu sætin?

„Auðvitað gerir þetta það, við megum ekki við því að tapa fleiri leikjum ef við ætlum að vera í baráttunni um efsta sætið.“

Spurður út í möguleika Tindastóls á efsta sætinu og leik kvöldsins milli Keflavíkur og Stjörnunar og hvort Stjarnan væri ekki að tryggja sér deildarmeistaratitillinn þar með sigri vildi Baldur lítið gefa út á það og sagði „Það er enn nóg eftir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira