Manchester United pakkaði Tranmere Rovers saman | Sjáðu mörkin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesse Lingard og Anthony Martial voru báðir á skotskónum í dag.
Jesse Lingard og Anthony Martial voru báðir á skotskónum í dag. Vísir/Getty

Leikurinn fór fram á Prenton Park sem líktist meir kartöflugarði heldur en knattspyrnuvelli. Það hafði virtist þó hafa engin áhrif á leikmenn Manchester United í dag. Nema mögulega Phil Jones sem nældi sér í gult spjald eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Jones var einn þriggja miðvarða Manchester United í leiknum en Ole Gunnar Solskjær stillti sínu liði upp í 3-4-3 leikkerfi í dag.

Á 10. mínútu leiksins komust gestirnir yfir þegar Harry Maguire átti hörkuskot fyrir utan teig sem söng í netinu. Hans fyrsta mark fyrir félagið og alls ekki af verri endanum. Þar sem Victor Lindelöf átti sendinguna á samherja sinn í vörninni fékk hann stoðsendinguna skráða á sig.

Aðeins þremur mínútum síðar hafði Diego Dalot, sem lék í stöðu hægri vængbakvarðar, skorað með góðu skoti úr þröngu færi eftir skemmtileg tilþrif hægra megin í vítateig Tranmere. Staðan orðin 2-0 fyrir úrvalsdeildarliðinu og aðeins 13 mínútur liðnar af leiknum. Var þetta einnig fyrsta mark Dalot fyrir Manchester United.

Aftur liðu aðeins þrjár mínútur áður en gestirnir voru búnir að skora enn á ný. Að þessu sinni var það Jesse Lingard en sá hefur ekki skorað síðan í desember 2018. Hann fékk knöttinn rétt fyrir utan vítateig eftir að Harry Maguire hafði borið knöttinn upp völlinn. Lingard átti fínan snúning áður en hann lagði knöttinn snyrtilega í netið.

Aðeins 16 mínútur búnar af leiknum en staðan orðin 3-0 og ljóst að Tranmere voru ekki að fara koma til baka úr þessu. Reikna má með að framlengingin gegn Watford í miðri viku hafi enn setið í þeim.

Áfram hélt niðurlægingin en á 41. mínútu fékk Manchester United horn. Þau hafa ekki verið líkleg til árangurs það sem af er tímabili en Andreas Pereira tók spyrnuna beint á kollinn á Phil Jones og söng boltinn í netinu. Fyrsta mark Jones síðan 2014 staðreynd. Áður en flautað var til hálfleiks var staðan orðin 5-0 en Anthony Martial skoraði þá með góðu skoti.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik bætti Mason Greenwood við sjötta marki gestanna af vítapunktinum eftir að brotið hafði verið á varamanninum Tahith Chong. Var það ótrúlegt en satt síðasta mark leiksins og lauk honum því með 6-0 sigri Manchester United. 


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira