Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 25-26 | Valsmenn unnu níunda leikinn í röð eftir dramatík

Einar Kárason skrifar
vísir/daníel

ÍBV tók á móti Valsmönnum í fyrsta leik ársins 2020 í Olís deild karla. Heimamenn í 6.sæti deildarinnar með 16 stig á meðan gestirnir af Hlíðarenda voru í 3.sæti með 19 stig. Ljóst að bæði lið ætluðu sér stigin tvö sem í boði voru. Eyjamenn höfðu áður unnið Valsmenn ytra og áttu gestirnir því harm að hefna.

Fyrstu mínútur leiksins voru jafnar áður en heimamenn náðu fínu gripi á gestunum og náðu upp 4 marka forskoti eftir um stundarfjórðung. Valsmenn gáfu þá í og náðu góðum 0-5 kafla og komust yfir. Við það vöknuðu leikmenn ÍBV á ný og nýttu mistök gestanna á lokamínútum fyrri hálfleiks virkilega vel og komust aftur 4 mörkum yfir. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 16-12 ÍBV í vil eftir stórfurðulega lokamínútu þar sem ÍBV skorar, Valsmenn keyra upp og tapa bolta, ÍBV skora aftur og komast svo fyrir lokaskottilraun Valsmanna áður en bjallan fór af stað.

Þar er sagan þó bara hálfsögð en hálfleiksræða Valsmanna virtist skila sér fullkomlega inn á völlinn en fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks voru gjörsamlega í þeirra höndum. Á þeim kafla skoruðu Valsmenn sjö mörk gegn einu og virtust til alls líklegir. Eyjamenn eru þó ekki þekktir fyrir að leggja ára í bát og hvað þá á heimavelli og við tók hörkuleikur þar sem minna var skorað en hart var barist. Frá því á 42. mínútu leiksins var munurinn aldrei meira en eitt mark. Eyjamenn jöfnuðu. Valsmenn skoruðu. Eyjamenn jöfnuðu. Valsmenn skoruðu.

Það var ekki fyrr en þegar um 5 mínútur eftir lifðu leiks að ÍBV náði loks forustunni, 23-22. Agnar Smári Jónsson tók þá leikinn í eigin hendur eftir að hafa verið grýtt í gólfið og skoraði tvö stór mörk en Hreiðar Levý Guðmundsson varði vel þar á milli. Valsmenn því komnir yfir á nýjan leik og einungis 3. mínútur eftir. Við tók þá eins kafli og áður þar sem liðin skiptust á að skora.

Þegar 10 sekúndur voru eftir kom Finnur Ingi Stefánsson gestunum yfir enn og aftur. ÍBV tóku þá leikhlé og freistuðu þess að jafna leikinn á þessum örfáu sekúndum sem eftir voru á klukkunni. Þeir tóku hraða sókn sem virkaði en þegar Elliði Snær Viðarsson var við það að koma boltanum í netið og jafna leikinn glumdi bjallan og leiktíminn liðinn. Dómarar leiksins handvissir í sinni sök um að boltinn hafi ekki verið kominn inn fyrir línuna og Valsmenn stóðu því uppi sem sigurvegarar í frábærum handboltaleik. Lokastaðan 25-26.

Af hverju vann Valur?

Dugnaður og kraftur liðsins í síðari hálfleik, þá sérstaklega fyrstu 10 mínúturnar, skilaði þessum sigri. Hreiðar Levý kom sterkur inn í markið og varði mikilvæga bolta.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍBV skoraði Hákon Daði Styrmisson manna mest, eða 8 mörk úr 10 skotum. Fannar Þór Friðgeirsson og Kristján Örn Kristjánsson gerðu 4 mörk hvor. Þá varði Petar Jokanovic 12 skot í leiknum. Varnarleikurinn var almennt góður.

Í liði Valsmanna skoraði Anton Rúnarsson 6 mörk en þeir Agnar Smári Jónsson og Finnur Ingi Stefánsson 5 mörk hvor. Agnar skoraði mikilvæg mörk undir lok leiks. Hreiðar í markinu varði 7 skot í síðari hálfleiknum. Sömuleiðis var varnarleikur Valsmanna góður, þá sér í lagi seinni 30.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍBV í byrjun síðari hálfleiks var ekki góður. Öll lið lenda í veseni ef þau skora ekki nema eitt mark á tíu mínútum gegn liði eins og Val. ÍBV koms í tvígang 4 mörkum yfir en misstu forustuna jafn óðum.

Hvað gerist næst?

ÍBV heimsækja nágranna sína á Selfossi á laugardaginn næstkomandi á meðan Valsmenn fá Mosfellinga í heimsókn degi síðar.

Kristinn: Mér fannst hann að sjálfsögðu vera inni

„Þetta féll með þeim í lokin og því fór sem fór,” sagði Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir leik. „Þetta er leikur sem klárast á smáatriðum.”

Eyjamenn leiddu með fjórum mörkum þegar gengið var til búningsherbergja en mættu ekki tilbúnir til leiks í síðari hálfleik þar sem gestirnir tóku völd.

„Þetta er leikur sem er mjög sveiflukenndur. Við erum að ná þarna tvisvar fjögurra marka forustu. Þeir (Valsmenn) eru að ná henni. Þá ná svo að vera aðeins á undan í seinni hálfleik og við alltaf að jafna.”

„Við töluðum um að halda áfram í hálfleik. Við ætluðum klárlega að reyna að sækja á aðra hluti sem við töldum vera möguleikar en við vorum bara ekki nógu sterkir sóknarlega fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik. Vorum of staðir og kannski ekki alveg klárir. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða, hvað var það í sóknarleik okkar í upphafi seinni hálfleiks sem var ekki nógu gott og laga það. Það er klárlega kafli í leiknum sem var ekki nógu góður.”

ÍBV voru nálægt því að jafna á lokasekúndu leiksins en dómarar leiksins töldu tímann vera liðinn þegar boltinn fór yfir línuna.

„Mér fannst hann að sjálfsögðu vera inni. Ég er náttúrulega alveg hlutlaus í því efni,” sagði Kristinn kíminn. „Vonandi hafa þeir haft rétt fyrir sér. Það var örugglega hrikalegt að þurfa að þetta. Var hann inni, var hann ekki inni? Hann þarf að taka ákvörðun og hann tekur þessa ákvörðun að sinni bestu vitund.”

Þrátt fyrir tap fannst Kristni spilamennska liðsins ekki vera alls galin.

„Við megum ekki grafa okkur niður við eins marks tap á móti liði sem er búið að vera besta liðið í deildinni upp á síðkastið. Það er ekki þar með sagt að maður sé ekki drullusvekktur við að hafa tapað. Við verðum bara að nýta þá daga sem við eigum fram á laugardag en við eigum hörkuleik á móti Selfoss og það verður örugglega eitthvað annað eins bíó.”

„Þetta snýst um að vera klókur og stundum höfum við verið það. Við vorum það á móti FH í síðasta leik og núna vorum við undir og við verðum bara að halda áfram. Við verðum að skapa okkar lukku sjálfir,” sagði Kristinn að lokum.

Óskar Bjarni: Í desember og núna erum við að vinna þetta með einu

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsmanna, var að vonum ánægður í leikslok.

„Mér fannst þeir ekki vera fjórum mörkum betri en við. Við áttum ekki að vera fjórum undir. Þeir voru kannski svona tveimur mörkum betri en við. Leikurinn var hægur og kannski svolítið hark í seinni hálfleik. Ekki jafn skemmtilegur og fyrri hálfleikurinn en gríðarlega spennandi. Við náðum að þétta vörnina hjá okkur og mér fannst við frábærir varnarlega en ekkert eitthvað rosalega góðir sóknarlega.”

„Við gerðum það sem þurfti til að klára tvö stig.”

Leikurinn í kvöld var mjög kaflaskiptur en stóri kafli Valsmanna kom í byrjun síðari hálfleiks.

„Við vorum aðeins óánægðir með litla hluti varnarlega. Við gerðum nokkur tæknimistök í lokin á fyrri hálfleik. Annars vorum við ekkert búnir að gera neitt af þeim í fyrri hálfleik. Svo er þetta bara oft þannig að þetta þarf að falla með þér. Þú ert fjórum mörkum undir og hefðu þeir skorað fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og komnir í sex mörk þá er mjög erfitt að vinna Eyjamenn á þessum frábæra velli.”

„Þetta byrjar þannig að við náum að setja og setja og vörnin er góð. Þeir ná eiginlega ekki skoti á markið í byrjun og þegar þeir náðu því var gamli kallinn (Hreiðar Levý Guðmundsson) góður í markinu. Við náðum að taka yfir leikinn í seinni hálfleik og unnu með einu.”

„Þeir unnu okkur með einu í fyrri umferðinni svo þetta eru bara hörkuleikir í þessari deild.”

Á kafla í leiknum voru ekki mörg mörk skoruð en hart var tekist á og nóg um fjör. Óskar Bjarni bjóst alveg við þessu fyrir leik.

„Við vorum ekkert að ná mörgum rosa flottum sóknum þér að segja. Þeir eru búnir að útfæra vörnina sína vel og við náum ekki alveg að fá rétta tempóið í spilið okkar. Þeir voru að stýra okkur þar.”

„Varnarleikurinn vann þetta í dag og karakterinn. Þetta var alvöru seinni hálfleikur. 30 mínútna harka. Það eru oft skemmtilegustu leikirnir.”

Valur byrjar nýja árið eins og þeir enduðu það gamla og var Óskar hæstánægður með það.

„Við vorum að tapa þessum leikjum fyrir toppliðunum í byrjun með einu marki. Í desember og núna í dag þá erum við að vinna þetta með einu. Það er munurinn og er ívið skemmtilegra. Við erum að fikra okkur upp þessa skemmtilegu deild. Við erum ánægðir með það og okkur er farið að líða betur á síðustu mínútunum. Það er komið meira sjálfstraust í liðið.”

Valsmenn fóru í æfingaferð í janúar og telur Óskar það hafa gert helling fyrir liðið.

„Við fengum frábæran janúar mánuð (æfingalega séð). Áttum góða æfingarferð í Japan. Það eru allir heilir hjá okkur og nokkuð sprækir,” sagði Óskar Bjarni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira