Viðskipti erlent

Enn einn gallinn fannst í hug­búnaði 737 Max

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kyrrsettar Boeing 737 Max vélar.
Kyrrsettar Boeing 737 Max vélar. epa/GARY HE

Boeing vinnur nú að því að laga galla í ræsingarkerfi hugbúnaðar 737 Max vélanna sem var nýlega uppgötvaður. Hugbúnaðargallinn bætist við langan lista hluta sem laga þarf í vélunum sem hafa verið kyrrsettar frá því í fyrra.

Boeing sagði í tilkynningu á föstudag að Flugmálastofnun Bandaríkjanna hafi verið látin vita af gallanum.

„Við erum að vinna að nauðsynlegum uppfærslum og vinnum með flugmálastofnuninni að þessum breytingum og höldum viðskiptavinum okkar og birgjum upplýstum,“ sagði í tilkynningunni. „Okkar forgangsmál er að tryggja að 737 Max vélarnar séu öruggar og uppfylli allar kröfur áður en þær fara aftur í dreifingu.“

Samkvæmt heimildarmanni felst gallinn í því að skynjarar sem eiga að fylgjast með grundvallarkerfum vélarinnar virka ekki almennilega.

Skynjararnir eiga að fara sjálfkrafa í gang þegar vélin er ræst og framkvæma athuganir en í nýlegri prófun virkaði einn skynjaranna ekki eins og skyldi. Þetta sagði heimildarmaðurinn sem bað um að vera ekki nafngreindur.

Gallinn uppgötvaðist við tækniprófanir sem venjulega eru framkvæmdar þegar hugbúnaðarþróun er rétt ólokið og gæti það þess vegna þýtt að Boeing sé nálægt því að ljúka breytingum á 737 Max vélunum og koma þeim aftur í loftið.

Boeing er að endurforrita hugbúnað 737 Max vélanna sem lék stórt hlutverk í tveimur flugslysum sem áttu sér stað í Indónesíu og Eþíópíu með fimm mánaða millibili og urðu 346 að bana. Flugvélarnar hröpuðu vegna galla í hugbúnaði vélanna og varð það til þess að allar flugvélar af sömu gerð voru kyrrsettar í mars 2019.

Boeing á enn eftir að klára þróun hugbúnaðarins, fara í nokkur tilraunaflug með sérfræðinga Flugmálastofnunar Bandaríkjanna um borð og fá farþegaflugmenn til að prófa vélarnar með nýju breytingunum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×