Skoðun

Suður­kjör­dæmi – klikkað kjör­dæmi

Guðbrandur Einarsson skrifar

Á árinu 2000 var kjördæmaskipan á Íslandi breytt og kosið skv. henni árið 2003. Suðurnesin sem áður tilheyrðu Suðurlandskjördæmi, tilheyra nú Suðurkjördæmi, sem er í raun gamla Suðurlandskjördæmið að viðbættum Hornafirði, sem áður tilheyrði Austurlandskjördæmi.

Þegar maður skoðar þetta kjördæmi landfræðilega þá blasir þessi mynd við:

Suðurlandskjördæmi.

Þetta kjördæmi nær nánast þvert yfir landið sundurskorið af tveimur Reykjavíkurkjördæmum og Suðvesturkjördæmi.

Suðurnesin eru aðeins lítill hluti þessa kjördæmis landfræðilega en um helmingur íbúa kjördæmisins búa samt sem áður á Suðurnesjum. Hvað réði þessari skiptingu? Af hverju var  Hornafirði bætt við? Af hverju voru Suðurnesin ekki hluti af Suðvesturkjördæmi og Mosfellsbær þá miklu frekar hluti af Suðurkjördæmi sem væri miklu rökréttara landfræðilega?

Hvað eiga Suðurnesin og Suðurlandsundirlendið sameiginlegt. Í mínum huga fjarska lítið. Atvinnuppbygging er allt önnur á Suðurlandi en á Suðurnesjum og hagsmunir æði ólíkir. Það getur heldur ekki verið hagkvæmt að þingmenn þurfi að þeytast landsenda á milli til þess að sinna kjósendum sínum.

Ég vil því leggja til að þessu verði breytt og Suðurkjördæmi skipt upp í tvö kjördæmi, Suðurlandskjördæmi og Suðurnesjakjördæmi.

Það myndi auðvelda vinnu þingmanna okkar, gera þeim að kleift að einbeita sér betur að þörfum þess svæðis sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Þetta myndi einnig minnka kolefnissporið og aksturskostnað þingmanna og þörfina fyrir að búa til Samviskugarða eins og einhverjir þingmanna hafa lagt til að settir verði á laggirnar, til þess að minnka samviskubit sitt.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×