Erlent

Trump kallar eftir dauða­refsingu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump vill að Dzokhar Tsarnaev verði dæmdur til dauða á nýjan leik.
Donald Trump vill að Dzokhar Tsarnaev verði dæmdur til dauða á nýjan leik. EPA/Anna Moneymaker

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað eftir því að Dzokhar Tsarnaev, annar tveggja bræðra sem stóðu að baki sprengjutilræðisins á Boston-maraþonið árið 2013, verði aftur dæmdur til dauða. Tsarnaev var dæmdur til dauða árið 2015 en á dögunum ógilti áfrýjunardómstóll dóminn, þar sem talið var að dómarinn í máli hans þá hafi vanrækt að ganga úr skugga um hlutlægni kviðdómenda.

„Sjaldan hefur nokkur verðskuldað dauðarefsinguna meira en sprengjumaðurinn í Boston, Dzokhar Tsarnaev. Rétturinn var sammála um að þetta [sprengjutilræðið í Boston] „væri ein versta innlenda hryðjuverkaárásin frá hörmungunum 11. september.“ Þrátt fyrir þetta henti áfrýjunardómstóll dauðarefsingunni í burtu. Svo mörg líf sem töpuðust og eyðilögðust,“ tísti Trump í gær.

Í tísti sínu kallar forsetinn þá eftir því að saksóknarar fari aftur fram á dauðarefsingu yfir Tsarnaev þegar réttað verður yfir honum á nýjan leik. Bandaríkin megi ekki leyfa niðurstöðu áfrýjunardómstólsins að standa. Þá sagði forsetinn það fáránlegt hve langan tíma tæki að fá endanlega niðurstöðu í málið.

Rétt er að taka fram að áfrýjunardómstóllinn tók ekki afstöðu til sektar eða sakleysis Tsarnaev heldur eingöngu til þess hvort gengið hafi verið úr skugga um að kviðdómendur væru honum óvilhallir.

Saksóknarar geta krafist þess að allir dómarar áfrýjunardómstólsins taki afstöðu til málsins eða áfrýjað málinu beint til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Ekki liggur fyrir hver næstu skref ákæruvaldsins í málinu verða.

Þrír féllu og fleiri en 260 manns særðust þegar Tsarnaev og eldri bróðir hans, Tamerlan Tsarnaev, sprengdu tvær sprengjur við endamark maraþonsins. Tamerlan féll í skotbardaga við lögreglu nokkrum dögum eftir sprengjuárásina í apríl árið 2013. Dzhokhar, sem var handtekinn eftir mikla leit í nágrenni Boston, er haldið hámarksöryggisfangelsi í Colorado.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.