Umfjöllun og viðtöl: Valur 1-4 ÍA | Skagamenn skoruðu mörkin á Hlíðarenda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skagamenn skoruðu mörkin að Hlíðarenda í kvöld. Tryggvi Hrafn fór á kostum.
Skagamenn skoruðu mörkin að Hlíðarenda í kvöld. Tryggvi Hrafn fór á kostum. Vísir/Andri Marinó

ÍA vann ótrúlegan sigur á Val að Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur 4-1 Skagamönnum í vil þökk sé mörkum frá Viktori Jónssyni, Tryggva Hrafni Haraldssyni, Bjarka Stein Bjarkasyni og Steinari Þorsteinssyni. Mark Vals skoraði að sjálfsögðu Patrick Pedersen.

Gengi liðanna fyrir leik kvöldsins hefur verið nokkuð ólíkt. Á meðan ÍA vann fyrsta leik sumarsins – gegn KA – þá tapaði Valur fyrir KR. Síðan þá hefur Valur unnið báða sína leiki á meðan ÍA hefur tapað sínum leikjum.

Valur vann örugga sigra á Gróttu og HK á meðan ÍA tapaði naumlega fyrir FH og KR.

Annar eins fyrri hálfleikur hefur varla sést

Fyrri hálfleikur var ótrúlegur áhorfs. Valsmenn sóttu og sóttu en ÍA var samt sem áður 3-0 yfir þegar flautað var til hálfleiks.

Valsmenn voru búnir að fá örugglega tvö fín færi þegar fyrsta markið kom. Það var hins vegar Viktor Jónsson sem skoraði það fyrir Skagamenn.

Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, lúðraði þá knettinum frá eigin teig fram völlinn. Orri Sigurður Ómarsson, miðvörður Vals, ætlaði að hreinsa en hitti boltann varla. Þaðan datt boltinn fyrir fætur Viktors sem skoraði af öryggi og Skagamenn komnir yfir.

Áfram héldu Valsmenn að sækja og sækja. Áttu þeir skot og fyrirgjafir sem hefðu allar geta endað með marki á öðrum degi. Það var samt Tryggvi Hrafn Haraldsson sem skoraði næsta mark leiksins og var það eitt af mörkum sumarsins.

Viktor fékk boltann úti hægra megin og lék inn á miðju. Renndi hann boltanum á Tryggva Hrafn sem var við D-boga. Tryggvi minnti á stórmeistara í svigi þegar hann sveigði fram hjá bæði Orra Sigurði og Birki Má Sævarssyni áður en hann renndi boltanum með vinstri fæti í vinstra horn marksins, fram hjá hjálparlausum Hannesi Þór Halldórssyni í marki Vals.

Bjarki Steinn Bjarkason kom ÍA svo í 3-0 eftir að Orri Sigurður klikkaði verulega í rangstöðugildru heimamanna. Viktor fékk sendingu upp hægri vænginn eftir að Sindri Snær Magnússon vann boltann á miðjunni. Viktor óð inn í teig og renndi boltanum á fjær þar sem Bjarki Steinn gat ekki annað en skorað.

Staðan orðin 3-0 og þannig var hún í hálfleik.

Bragðdaufur síðari hálfleikur

Ótrúlegt en satt gerði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, enga breytingu í hálfleik. Það tók hans menn hins vegar aðeins fimm mínútur að minnka muninn. Þar var að verki Patrick Pedersen með skoti sem fór í varnarmann og yfir Árna í markinu.

Skömmu síðar gerði Valur þrefalda skiptingu en eftir það virtist allur taktur úr heimamönnum. Það tók þá langan tíma að ná vopnum sínum. Tókst þeim aldrei að ógna gestunum af neinu viti og þegar tæpar 20 mínútur voru til leiksloka þá skoraði Steinar Þorsteinsson fjórða mark gestanna.

Hann og Viktor fífluðu þá varnarmenn Vals og Steinar átti skot af stuttu færi sem fór svo gott sem í gegnum Hannes Þór í markinu. Staðan orðin 4-1 gestunum í vil og endurkoma Vals endanlega úr sögunni.

Reyndust það síðan lokatölur í hreint út sagt ótrúlegum fótboltaleik. Bæði lið því með sex stig þegar fjórum umferðum er lokið.

Af hverju vann ÍA?

Þeir nýttu færin sín. Það var ekkert flóknara en það í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Tryggvi Hrafn Haraldsson, Viktor Jónsson og Árni Snær Ólafsson áttu allir frábæran leik í liði Skagamanna. Mark Tryggva var stórkostlegt og þá átti Viktor þátt í öllum fjórum mörkum Skagamanna. Spyrnur Árna Snæs jaðra svo við að vera bannaðar innan átján.

Hvað mátti betur fara?

Færanýting Vals sem og varnarleikur liðsins. Þori að fullyrða að enginn leikmaður liðsins sé sáttur með eigin frammistöðu í kvöld.

Hvað gerist næst?

Liðin eiga aftur leik á miðvikudaginn í næstu viku og því ekki mikill tími til að jafna sig. Valur heimsækir Víkinga í rjómablíðunni í Fossvoginum. Er sá leikur í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport klukkan 18:00.

Jóhannes Karl var eðlilega mjög sáttur í leikslok.Mynd/Stöð 2 Sport

Jói Kalli: Hugmyndafræðin okkar er ekki flókin

„Heyrðu ég er bara nokkuð sáttur eins og allir Skagamenn sem voru á þessum leik, „ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson glaður í bragði eftir ótrúlegan 4-1 sigur á Val að Hlíðarenda í kvöld.

„Við höfum verið að reyna spila okkar leik, við höfum verið að reyna að finna veikleika í leik andstæðinganna og það hefur gengið ágætlega. Í dag er munurinn að við vörðumst vel og lokuðum á það sem Valsararnir voru að gera, við vildum pressa þá og láta Hannes hafa boltann. En við vitum líka að við erum með frábæra menn fram á við sem geta skorað mörk og þau skiluðu sér svo sannarlega í dag,“ sagði Jóhannes Karl um muninn á leik liðsins í kvöld og leiknum gegn KR þar sem Skagamenn töpuðu – mögulega ósanngjarnt – með tveimur mörkum gegn einu.

„Hugmyndfræðin okkar er ekki flókin. Við viljum spila á þeim svæðum þar sem við erum í yfirtölu og Valur setti ansi marga menn fram til að loka á uppspilið hjá okkur og við vorum oft á tíðum, sérstaklega í fyrri hálfleik, þrír á móti þremur inn á vallarhelmingi Vals. Við nýttum okkur það vel og Árni er góður spyrnumaður,“ var svarið þegar undirritaður spurði út í hvort leikplanið í dag hefði verið að taka fleiri langa bolta en venjulega.

Fyrsta mark leiksins skoraði Viktor Jónsson einmitt eftir einn þráðbeinan 70 metra langan bolta frá Árna Snæ Ólafssyni, markverði ÍA.

„Viktor er frábær leikmaður, frábær karakter. Við erum að vinna í að þróa liðið og Viktor gegnir lykilhlutverki í sinni stöðu eins og allir aðrir leikmenn. Hann er búinn að gera þetta virkilega vel og hefur verið óheppinn. Hann gæti verið búinn að skora og leggja upp fleiri mörk. Það heppnaðist vel hjá honum í dag og hann er frábær í þessari stöðu,“ sagði Jóhannes um frammistöðu framherjans Viktors sem hefur verið út á væng í 4-3-3 leikkerfi ÍA í sumar.

„Við erum ekkert að horfa til baka, ég er virkilega ánægður með þrjú stig hér í dag,“ sagði Jóhannes að endingu aðspurður hvort Skagamenn væru sáttir með sex stig eftir fjórar umferðir.

Heimir var ekki sáttur í leikslok.Vísir/Stöð 2 Sport

Heimir: Vinnur ekki fótboltaleiki ef þú færð á þig fjögur mörk

„Það er þannig í þessum leik að það þarf að vera ákveðin grunnvinna í staðinn þegar þú ferð í leik og hún var ekki til staðar í kvöld. Byrjuðum ekki nógu vel, fáum klaufalegt mark á okkur og réðum illa við fríska menn hjá Skaganum. Eftir að við fengum á okkur fyrsta markið varð þetta bara verra, verra og verra,“ sagði súr Heimir í viðtali beint eftir leik.

„Ekki hugmynd,“ var svar Heimis varðandi hvort leikmenn Vals hefðu verið komnir fram úr sér eftir gott gengi í síðustu leikjum.

„Mér fannst við reyna í seinni hálfleik en það var ekki nægilega gott en ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir að stjórna liði sem fær jafn mikið af góðum upplaupum og góðar stöður á vellinum en ekki nógu góðar ákvarðanatökur á síðasta þriðjung. En að því sögðu þá vinnur þú ekki fótboltaleiki ef þú færð á þig fjögur mörk,“ sagði Heimir að lokum.

Tryggvi Hrafn skoraði stórglæsilegt mark í kvöld.Mynd/Stöð 2 Sport

Tryggvi Hrafn sagði færanýtingu liðsins helsta muninn milli leikja

„Frábært að ná þremur stigum hér í dag. Einn erfiðasti útivöllur landsins og ekki verra að vinna með þremur mörkum svo ég er bara mjög ánægður,“ sagði einn markaskorara ÍA í kvöld.

„Færanýtingin í rauninni. Við fengum fullt af færum á móti KR en það fór ekkert inn – nánast – en við nýttum okkar færi í dag og hefðum meira að segja getað skorað fleiri. Pressan var betri, vorum þéttari sem lið og það skóp þennan sigur,“ sagði Tryggvi Hrafn um muninn á leik kvöldsins og svekkjandi tapi gegn KR í síðustu umferð.

„Það er mjög ásættanlegt, sérstaklega eftir leikjaprógramið sem við erum búnir með. Við hefðum viljað ná allavega stigi í síðasta leik en ætli við séum ekki sáttir með sex stig,“ sagði framherjinn að lokum aðspurður hvort leikmenn ÍA væru sáttir með sex stig eftir fjóra leiki.

Landsliðsmarkvörðurinn skyldi hvorki upp né niður í leik kvöldsins.Mynd/Stöð 2 Sport

Hannes Þór: Veit ekki hvort ég sé eitthvað geðveikur

„Við erum eins og jólasveinar í þessum mörkum sem Skaginn skorar. Að vera 3-0 undir í hálfleik er auðvitað stórslys og á ekki að gerast. Mér fannst þetta stórfurðulegur fyrri hálfleikur því að – ég veit ekki hvort ég sé eitthvað geðveikur – en mér fannst við að mörgu leyti spila þann hálfleik fínt. Fengum haug af færum en þeir refsa okkur í hvert einasta skipti sem við klikkum og þá er þetta auðvitað mjög þungt,“ sagði Hannes Þór um sín fyrstu viðbrögð að leik loknum. Hann hélt áfram.

„Við höfðum trú á að við gætum komið til baka, við fengum það mikið af sénsum í fyrri hálfleik að ef við náum inn marki þá gætum við komið til baka og unnið leikinn. Við náðum því og vorum að pressa á þá en þeir leggjast djúpt og gerðu það mjög vel. Svo þegar liðið hefði þurft vörslu frá mér þá kom hún ekki, þeir klára þetta og við sitjum eftir með hræðileg úrslit.“

„Maður hefur lent í ýmsu í þessu en þetta var með því skrýtnara. Við hefðum getað skorað þrjú í fyrri hálfleik en gerðum það ekki. Þeir skoruðu þrjú og voru mjög skilvirkir. Þeir eru mjög góðir í því sem þeir gera. Stundum er þetta svona í fótbolta, það lekur allt inn hjá þér og það gengur ekkert upp hinum megin, þetta var einn af þeim dögum og auðvitað var það bakslag en við ætluðum að halda áfram því góða skriði sem við höfum verið á,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn um þennan stórskrýtna leik sem fór fram á Hlíðarenda í kvöld.

„Nei, mér fannst menn mjög tilbúnir í leikinn og mér fannst við í rauninni sýna það. Auðvitað fá þeir þetta mark þarna eftir þrjár mínútur en mér fannst smá heppnisstimpill yfir því og við vorum með tökin framan af. Svo setja þeir 2-0 og þá var þetta erfitt. Mér fannst við koma rétt gíraðir inn í leikinn og leið ekki eins og við hefðum farið fram úr okkur en svo töpum við 4-1 svo kannski er það ein af skýringunum, ég veit það ekki,“ sagði Hannes aðspurður hvort leikmenn Vals hefðu nokkuð verið farnir að svífa um á bleiku skýi eftir tvo sigurleiki í röð.

„Það er ekkert annað í þessu, þetta getur verið leiðinlegt þetta sport og nú verðum við súrir í 1-2 daga en svo rífum við okkur upp. Það er ekkert annað að gera en að svara fyrir þetta í næsta leik, þannig virkar þetta bara,“ sagði Hannes að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira