Makamál

„Slepptu hnetusmjöri ef þú vilt að stefnumótið endi í sleik“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Hrefna Rósa matreiðslumestari gefur góð ráð varðandi mat þegar bjóða skal heim á rómantískt stefnumót.
Hrefna Rósa matreiðslumestari gefur góð ráð varðandi mat þegar bjóða skal heim á rómantískt stefnumót. Vilhelm Gunnarsson

Það er fátt meira heillandi en að vera boðið á stefnumót í góðan heimaeldaðan mat. Við höfðum samband við Hrefnu Rósu Sætran matreiðslumeistara og fengum ráðleggingar um hvað ber að forðast þegar þú býður í mat og hvaða réttir eru tilvaldir fyrir rómantískt kvöld. 

„Ég myndi forðast það að kaupa eitthvað tilbúið og ljúga því að þú hafir eldað það frá grunni. Það er ekki gott. Bæði ertu að ljúga sem er ekki góð byrjun á sambandi og koma þér í þá stöðu að manneskjan búist við svona mat frá þér alla daga. Bara hrein og bein vörusvik. Frekar bara segja að þú hafir keypt þetta.“

En er einhver matur sem á sérstaklega að forðast þegar boðið er á stefnumót?

„Matur sem lætur andardráttinn vera vondan eins og hrár laukur og mikið af hvítlauk. En smá er í lagi. Ég hef líka heyrt að hnetusmjör láti munnvatnið verða þykkt og auki jafnvel munnvatnsframleiðslu. Það viljum við ekki. Þetta hefur eitthvað að gera með þykktina á hnetusmjörinu og hvað það er lengi í munninum.“

Væri örugglega ágætt að sleppa hnetusmjörinu ef þú vilt að stefnumótið endi í sleik.

Hvaða ráð gefur þú fólki varðandi val á mat þegar það þekkir ekki manneskjuna mikið?

Ég myndi gera eitthvað sem þú ert alveg með á hreinu hvernig er gert. Eitthvað sem þú hefur gert oft. Svo myndi ég spyrja manneskjuna hvort hún sé með einhver fæðuofnæmi eða sé grænmetisæta eða eitthvað þannig. Það er glatað að vera búinn að elda eitthvað sem er svo ekki hægt að borða. Eitthvað indverskt ætti að vera þægilegt því það fýla næstum allir eða langflestir. 

Mér finnst bara fallegt að spyrja manneskjuna vel út í hvað hún fýlar. Það sýnir að þér er ekki sama um manneskjuna og viljir að kvöldið verði gott.

Er einhver matur sem er meira „ sexy“ en annar?

Já, klárlega. Ostrur og skelfiskur almennt hafa lengi verið talin fryggðarlyf. Hann er stútfullur af sínki sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur og við þurfum að fá úr fæðunni. 

Sínk er talið hjálpa karlmönnum að fá standpínu og til að endast lengur í kynlífi. Það er einnig talið auka kynhvötina hjá báðum kynjum. 

Annar matur sem er stútfullur af sínki er kjöt, baunir, hnetur og fræ. Svo er súkkulaði „sexy“. Súkkulaðihjúpuð jarðarber. Jarðarber eru hjartalaga og talin mjög rómantísk. Sterk krydd eins og chili, cayenne og cumin hita líkamann og láta hjartað slá hraðar sem getur haft áhrif á skap fólks. Þannig að þar kemur indverskur matur sterkur inn.

Skelfiskur í forrétt, indverskur í aðalrétt og súkkulaðihjúpuð jarðarber í eftirrétt væri örugglega fullkomin blanda. 

Uppskrift fyrir tvo

CHILI LÍMÓNU RÆKJUR

16 stk. risarækjur (óeldaðar)

2 stk. límónur

60 ml ólífuolía

1 tsk. chili flögur

½ tsk. cumin

Salt og pipar

Graslaukur

Aðferð: Blandið saman safanum úr límónunum, ólífuolíunni, chili flögunum og kúmininu í skál og marinerið rækjurnar í 30 mínútur. Hitið pönnu þar til hún er rjúkandi heit og steikið rækjurnar í 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær eru orðnar alveg bleikar. Slökkvið undir pönnunni og kryddið með salti og pipar. Setjið svo slatta af söxuðum graslauk út á.

„Sínk er talið auka kynhvötina hjá báðum kynjum“, segir Hrefna Rósa. Og bætir því við skelfiskur sé þekkt sem fryggðarlyf því að hann sé stútfullur af sínki. Vilhelm Gunnarsson

KJÚKLINGUR Í KÓKOSKARRÝ

1 msk kókosolía

1 stk. laukur, skorinn í hringi

2 rif hvítlaukur, fínt saxaður

1 msk engiferrót, rifin

1 tsk. cumin

1 tsk. cayenne

1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri eða það kjúklingakjöt sem þú fýlar

1 dós hakkaðir tómatar

1 dós kókosmjólk

Nokkrir kirsuberjatómatar

Kóríander

Salt og pipar

Aðferð: Hitið olíuna í pönnu við miðlungs hita og steikið laukinn upp úr henni. Bætið svo hvítlauknum út í ásamt engiferrótinni og steikið áfram. Bætið loks kryddunum út í og steikið áfram í smá stund. Steikið kjúklinginn létt upp úr kryddunum, bætið tómötunum út í og sjóðið saman í korter. Bætið svo kókosmjólkinni út í ásamt kirsuberjatómötunum og sjóðið niður þar sósan er orðin þykk. Kryddið til með salti og pipar og setjið svo saxaðan kóríander yfir. Berið fram með hrísgrjónum og nanbrauði.

„Sterk krydd eins og chili, cayenne og cumin hita líkamann og láta hjartað slá hraðar sem getur haft áhrif á skap fólks. Svo þar kemur indverskur matur sterkur inn“, segir Hrefna Rósa. Vilhelm Gunnarsson

Svo er það eftirréturinn.

Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og dýfið jarðarberjum upp úr því. 

Við þökkum Hrefnu Rósu kærlega fyrir góðar ráðleggingar og girnilegar uppskriftir. Nú er bara næsta skref að taka upp símann og bjóða á stefnumót. 

„Skelfiskur í forrétt, indverskur í aðalrétt og súkkulaðihjúpuð jarðarber í eftirrétt væri örugglega fullkomin blanda“ segir Hrefna Rósa þegar spurt er hvaða matur væri tilvalinn fyrir stefnumót.Vilhelm Gunnarsson

Tengdar fréttir

Móðurmál: „Mörgum fannst skrítið að við kusum að fæða heima“

„Fæðingarorlofið tók töluverðum breytingum í byrjun febrúar þegar leikskólaverkfallið skall á og virtist engann endi ætla að taka. Það var krefjandi verkefni að vera heima með tvö börn, eina vel hressa tveggja ára og einn 6 mánaða“. Þetta segir Birta Ísólfsdóttir fatahönnuður í viðtalsliðnum Móðurmál.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.