Íslenski boltinn

KSÍ býður upp á keppni varaliða næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR eru ríkjandi Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla.
KR eru ríkjandi Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Vísir/Bára

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur gefið það út að sumarið 2020 verði boðið upp á keppni varaliða í meistaraflokki karla. Er um tilraunaverkefni til eins árs að ræða. Tilkynning um málið var send á íslensk knattspyrnufélög fyrr í dag. Hana má lesa hér að neðan.

Tilkynningin í heild sinni

Góðan dag

KSÍ hefur ákveðið að bjóða upp á keppni varaliða í meistaraflokki karla sumarið 2020. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs. Þátttökurétt hafa öll félög sem taka þátt í Íslandsmóti meistaraflokks karla 2020.

Ekki er heimilt að tefla fram samvinnuliðum. Ákveðið hefur verið að hlutgengir til leiks séu allir leikmenn félagsins. 

Þegar þátttaka liggur fyrir mun mótanefnd KSÍ ákveða keppnisfyrirkomulag. Gert er ráð fyrir að fjöldi leikja verði um það bil tveir á mánuði. 

KSÍ leggur til dómara í leikina, heimalið sér um að manna aðstoðadómara.

Ingólfur Sigurðsson, stjórnarmaður KH sem leikur í 4. deildinni, hefur látið áhyggjur sínar í ljós á Twitter. Hann telur að þetta gæti úrýmt venslafélögunum svokölluðu og eflaust eru margir sem munu taka í sama streng en mörg lið í neðri deildum hér á landi treysta á lánsmenn frá stóra bróður ef svo má að orði komast.

Minnir fyrirkomulagið um margt á U23 ára deildina sem KSÍ hélt úti hér á árum áður. Sú var á endanum lögð niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×