Innlent

Slegið í gegn í Héðinsfjarðargöngum

Söguleg tímamót urðu nú undir kvöld þegar bormenn rufu einangrun Héðinsfjarðar þegar þeir sprengdu síðasta haftið í jarðgöngunum til Siglufjarðar.

Héðinsfjarðargöng samanstanda af tveimur göngum sem annars vegar liggja frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð og hins vegar úr Héðinsfirði yfir í Ólafsfjörð. Samanlagt eru göngin um 11 kílómetrar að lengd og af því eru göngin milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar um 3,7 kílómetrar. Framkæmdum frá Siglufirði hefur miðað mjög vel og síðdegis í dag voru aðeins fimm metrar í að þau slái í gegn, það er að búið verði grafa göng frá Siglufirði til Héðinsfjarðar. Almenningi gefst þó ekki kostur á að fara um göngin alveg strax eða ekki fyrr en búið verður að styrkja bergvegginn og þétta.

Héðinsfjarðargöng er stærsta verkefni sem Vegagerðin hefur boðið út til þessa. Framkvæmdin er liður í að bæta samgöngur, auka umferðaröryggi og tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið. Leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar mun styttast um 47 kílómetra en sveitarfélögin tvö sameinuðust árið 2006 og þar búa um 2200 manns.

Samtals er búið að sprengja um 60 prósent af heildarlengd ganganna en verklok eru áætluð í desember á næsta ári . Ekki hefur gegnið eins vel að sprengja Ólafsfjarðarmegin vegna bergþéttinga. Þar er búið er að sprengja tæpa 2,7 kílómetra af þeim 6,9 sem göngin eiga að vera eða um 40 prósent.

Ekki verður formlega haldið uppá það á morgun að búið sé að gera göng frá Siglufirði yfir Héðinsfjörð. Þó er gert ráð fyrir að starfsmennirnir á svæðinu haldi upp á áfangann með einhverjum hætti annað kvöld. Ráðherrum og öðrum gestum verður síðan boðið að skoða göngin eftir um það bil tvær vikur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.