Innlent

„Þetta er bara verkefni sem þarf að takast á við og verður leyst“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forsætisráðherra hefur fulla trú á að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, muni standa sig vel í embættinu.
Forsætisráðherra hefur fulla trú á að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, muni standa sig vel í embættinu. Vísir/stöð 2

„Þetta er bara verkefni sem þarf að takast á við og verður leyst,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um Landsdómsmálið svokallaða og þau stóru verkefni sem bíða ríkisstjórnarinnar eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að skipan dómara við Landsrétt hefði verið ólögmæt.

Þetta segir Katrín rétt áður en hún hélt til fundar ríkisráðsins að Bessastöðum þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar-og nýsköpunarmála tekur við embætti dómsmálaráðherra af Sigríði Á. Andersen.

Katrín segist vera ánægð með hina nýju ráðstöfun og treystir Þórdísi til að standa sig vel.

„Ég held að Þórdís muni bara valda þessu verkefni vel eins og öðrum þeim verkefnum sem hún heldur utan um og að þetta verði bara farsæl ráðstöfun.“

Þegar Katrín er spurð hvort það stæði til að Sigríður taki við embættinu að nýju svarar hún:

„Eins og fram hefur komið þá segir hún af sér, hættir eða stígur til hliðar - eða hvaða orð sem fólki finnst heppilegast að nota um það - til þess að það sé hægt að leiða þau mál sem eru uppi sem er auðvitað stóra málið í þessu öllu saman þar er að segja viðbrögð stjórnvalda við úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Að það skapist vinnufriður um þau mál og að það verði hægt að leiða þau til lykta með farsælum hætti. Og það er allsendis óvíst hve langan tíma það mun taka. Það er auðvitað stóra viðfangsefnið sem blasir við íslenskum stjórnvöldum að leysa úr þeim málum.“

Katrín segir að hún hafi kallað til sérfræðinga til að veita sér ráðgjöf í málinu.

„Ég mun að sjálfsögðu vinna það með nýjum dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því hvernig þessum málum verður lent þannig að ég hef engar áhyggjur af því. Þetta er bara verkefni sem þarf að takast á við og verður leyst.“


Tengdar fréttir

Þórdís Kolbrún tekur við sem dómsmálaráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tekur við sem dómsmálaráðherra af Sigríði Á. Andersen. Þórdís kemur til með taka við embættinu tímabundið ásamt öðrum störfum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.