Viðskipti innlent

Kvika og fjárfestar vinna að stofnun allt að 14 milljarða sjávarútvegssjóðs

Hörður Ægisson skrifar
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi.
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi.
Kvika banki, í samstarfi við bresku viðskiptafélagana Mark Holyoake, sem var stærsti hluthafi Iceland Seafood og stjórnarmaður á árunum 2010 til 2019, og Lee Camfield, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrar hjá Ice­land Seafood, vinna nú að stofnun framtakssjóðs sem mun einkum fjárfesta í evrópskum fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Sjóðurinn hefur að undanförnu, samkvæmt heimildum Markaðarins, verið kynntur íslenskum fagfjárfestum – lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum og einkafjárfestum – og eru væntingar um að hægt verði að ljúka fyrstu umferð söfnunar áskriftarloforða frá fjárfestum á næstu vikum. Lagt er upp með að heildarstærð framtakssjóðsins, sem heitir Bluevest Capital, við stofnun verði um 40 milljónir evra, jafnvirði 5,5 milljarða króna, með möguleika á að stækka hann í allt að 100 milljónir evra innan tólf mánaða.

Áætlanir gera ráð fyrir að Kvika banki komi að fjármögnun framtakssjóðsins sem minnihlutaeigandi en bankinn verður hins vegar ekki rekstraraðili hans. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri dótturfélags Kviku í Bretlandi, sem leiðir verkefnið fyrir hönd bankans, mun taka sæti í fjárfestingarráði sjóðsins ásamt meðal annars Holyoake og Camfield en þeir hættu störfum sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hjá Iceland Seafood í byrjun þessa árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×