Erlent

Ebólusmit í fjölmennri landamæraborg

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 1600 hafa látið lífið í ebólufaraldrinum sem kom upp í landinu fyrir ári síðan.
Um 1600 hafa látið lífið í ebólufaraldrinum sem kom upp í landinu fyrir ári síðan. Epa/HUGH KINSELLA CUNNINGHAM
Yfirvöld í Lýðveldinu Kongó hafa nú staðfest að ebólusmit hafi greinst í borginni Goma í austurhluta landsins í fyrsta sinn, en þar býr rúm ein milljón manna.

Hinn smitaði, sem er prestur, var nýkominn til borgarinnar og því eru líkur á að sjúkdómurinn dreifist þar taldar litlar. Þannig er nú þegar búið að flytja prestinn á meðferðarstöð gegn Ebólu og búið er að hafa uppi á öllum þeim sem deildu með honum rútu á leið til borgarinnar.

Hópurinn hafði ferðast frá borginni Butembo í norðausturhluta landsins en þar er Ebólu-ástandið einna verst, ekki síst í ljósi reglulegra árása á heilbrigðisstarfsfólk. Fjölmargir vopnaðir hópar takast jafnframt á í Lýðveldinu Kongó sem hefur torveldað tilraunir yfirvalda til að stemma stigu við sjúkdómnum.

Í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti landsins eru snör handtök í tilfelli presins hins vegar talin hafa komið í veg fyrir frekari dreifingu smitsins. Lengi hefur verið óttast að Ebóla muni nái fótfestu í Goma en borgin er skammt frá landamærunum við Rúanda.

Rúmlega 1600 manns hafa látist í nýjasta ebólufaraldrinum í landinu sem kom upp fyrir ári síðan. Vandamálið hefur þó til þessa verið bundið við dreifðari byggðir landsins þar sem auðveldara er að halda faraldrinum í skefjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.