Fótbolti

Litla ösku­bu­sku­ævin­týrið í Portúgal

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Alex Centelles, sem er á láni hjá Famalicão frá Valencia, fagnar sigrinum gegn stórliði Sporting á dögunum af mikilli innlifun.
Alex Centelles, sem er á láni hjá Famalicão frá Valencia, fagnar sigrinum gegn stórliði Sporting á dögunum af mikilli innlifun. NordicPhotos/Getty
Kóngarnir í Portúgal þessa stundina eru litla liðið Famalicão. Liðið er efst eftir sjö umferðir og lagði einn af risunum í portúgalska fótboltanum, Sporting frá Lissabon, í síðustu umferð á útivelli. Liðið er í eigu forríks Ísraela, Idan Ofer, og Quantum Pacific Group sem á einnig stóran hlut í Atletico Madrid. Liðið rauk upp úr annarri deildinni fyrir þetta tímabil og fékk 19 nýja leikmenn fyrir tímabilið. Ofurumboðsmaðurinn Jorge Mendez er einnig með puttana í liðinu því nokkrir ungir og efnilegir skjólstæðingar hans eru á mála hjá því.

Liðið er svo óþekkt og svo lítið að þegar þrjár umferðir voru búnar og liðið á toppnum var varla hægt að finna merki þess – þó að það væri gúglað. Meira að segja Helgi Valur Daníelsson, sem lék í portúgölsku deildinni og fylgist að eigin sögn ágætlega með deildinni, hafði ekki hugmynd um hvaða lið þetta væri þegar eftir var leitað. Eðlilega, því fyrir áratug var liðið í fimmtu deild og fór í aðra deildina fyrir fimm árum. Það komst upp í maí en var spáð rakleiðis beint niður aftur. En peningar geta gert kraftaverk í fótboltanum. Idan Ofer, sem metinn er á 5,1 milljarð dollara sem eru ansi margar íslenskar nýkrónur, fer fyrir fjárfestingarfélagi sem á einnig um þriðjung í Atletico Madrid og liðið er nýjasta leikfang þess.

Famalicao leikmenn stóðu út á velli lengi eftir sigurinn gegn Sporting og klöppuðu til sinna stuðningsmanna.
Snemma í september jók Ofer hlut sinn í Famalicão upp í 85 prósent. Hann dældi peningum inn í félagið og fékk liðið 19 nýja leikmenn til sín. Leikmennirnir sem komu voru ekkert slor því þeir voru flestir á mála hjá Jorge Mendes og Gestifute-umboðsskrifstofunni. Þarna má finna Diogo Goncalves sem er í U-21 árs landsliði Portúgals og miðjumanninn Guga sem komu frá risunum í Benfica og eru undir handarjaðri Mendes en aðrir hafa komið frá öðrum liðum sem Mendes stýrir eins og Valencia á Spáni og Úlfunum á Englandi.

Ofurumbinn Jorge Mendes er með puttana víða í fótboltanum. Núna er Portúgal leikvöllurinn hans.
Ruben Lameiras, sem spilaði í unglingaliði Tottenham kom í sumar og Josh Tymon, enskur vinstri bakvörður, hefur þótt magnaður. Sá er í láni frá Stoke en þjálfarinn, Joao Pedro Sousa, þekkir enska boltann vel eftir að hafa verið aðstoðarmaður hjá Hull, þar sem hann vann með Tymon, Watford og síðast Everton. Trúlega er Tymon sá eini sem er þarna fyrir hæfileika sína því þjálfarinn lagði mikla áherslu á að fá kappann. Þá er Gustavo Assuncao einnig á láni frá Atletico Madrid. Það kom lítið á óvart að Sousa var valinn stjóri ágústmánaðar og verður trúlega líka fyrir valinu í september.

Portúgalska deildin er númer átta yfir sterkustu deildir Evrópu. Flestir nýliðar í þeim deildum eru að ströggla í upphafi tímabilsins fyrir utan Famalicão og Granada á Spáni, sem situr í öðru sæti La Liga. Á Englandi eru nýliðarnir fyrir neðan 12. sæti og Aston Villa í fall­sæti, nýliðarnir þrír í Þýskalandi eru allir við botninn, Brescia, Lecce og Genoa eru í neðri hlutanum á Ítalíu og í Frakklandi eru Metz og Brest í 17. og 18. sæti. Í Rússlandi eru nýliðarnir í Tambov í neðsta sæti en Sochi í því tíunda.

Að Famalicão nái að halda sér á toppnum fram í maí er ekki líklegt. Það gerist sjaldan að einhver nái að skáka risunum þremur, Benfica, Sporting og Porto, sem hafa unnið deildina alltaf nema tvisvar. Boavista skákaði þeim árið 2001 og gamla félagið hans Helga Vals, Belen­enses, varð meistari 1945. Næsti leikur Famalicão er einmitt gegn Porto sem situr í þriðja sæti, stigi á eftir litla liðinu. Hvort þetta verkefni takist hjá þeim Mendes og félögum skal ósagt látið en það er allavega alltaf gaman að fá upp ný andlit og nýtt félag á toppinn, hvar sem það er í Evrópu.

Heimavöllur liðsins tekur aðeins fimm þúsund manns í sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×