Erlent

Støj­berg sækist eftir vara­for­mennsku í Ven­stre

Atli Ísleifsson skrifar
Inger Støjberg hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2001.
Inger Støjberg hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2001. Getty
Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála í Danmörku, hefur tilkynnt að hún sækist eftir varaformennsku í Venstre.

Vangaveltur hafa verið uppi um hvort Støjberg myndi sækjast eftir formennsku í flokknum en í samtali við danska fjölmiðla í morgun sagðist hún styðja Jacob Elleman-Jensen sem næsta formann.

Ellemann-Jensen, sem var ráðherra umhverfis- og matvælamála í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen, greindi frá framboði sínu til formanns flokksins í gær, en hann er sonur Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.

Miklar deilur hafa verið innan Venstre eftir þingkosningarnar sem fram fóru í júní sem urðu til þess að formaðurinn Lars Løkke Rasmussen sagði af sér formennsku í Venstre um síðustu helgi. Hann gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 2009 til 2011 og aftur 2015 til 2019.

Støjberg hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2001 og í ráðherratíð sinni þótti hún reka harða stefnu í innflytjendamálum.

Løkke sagðist um helgina ekki geta setið áfram sem formaður flokksins þegar hann fengi ekki tækifæri til þess að ræða þau stefnumál sem hann hafi sett á dagskrá og halda áfram að fylgja þeirri stefnu innan flokksins. 

Skömmu eftir að Løkke tilkynnti um afsögn sína greindi varaformaðurinn Kristian Jensen frá því að hann hugðist gera slíkt hið sama.


Tengdar fréttir

Lars Løkke hættir sem formaður Venstre

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Venstre-flokksins í Danmörku, tilkynnti í dag að hann hygðist hætta sem formaður flokksins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×