Erlent

Líklegt að uppáhalds hershöfðingi Napóelons hafi fundist undir dansgólfi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Napóleon fer yfir Alpana, málverk eftir Jacques-Louis David.
Napóleon fer yfir Alpana, málverk eftir Jacques-Louis David.
Fornleifafræðingar munu í dag kynna niðurstöðu á DNA-greiningu á jarðneskum leifum sem fundust undir dansgólfi í rússnesku borginni Smolensk í sumar. Vonir standa til að leifarnar séu af Charles-Étienne Gudin, uppáhalds hershöfðingja Napóelon Bónaparte, sem lést í innrás Napóleons í Rússland á 19. öldinni. BBC fjallar um málið.

Fornleifafræðingar fundu fyrr í sumar leifar af beinagrind en augljóslega mátti sjá að á hana vantaði aðra löppina. Stemmir það við frásagnir af dauða Gudin sem herma að fjarlægja hafi þurft aðra löppina eftir að hann varð fyrir fallbyssukúlu við Smolensk árið 1812. Hann lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar.

Teymi fornleifafræðinga hefur leitað af jarðneskum leifum hans frá því í vor en fyrr í sumar fundust leifarnar sem nú er verið að rannsaka í kofa í almenningsgarði við Smolensk, nánar tiltekið undir dansgólfi.

Gudin var einn virtasti hershöfðingi Frakklandshers er hann lést, en hann útskrifaðist úr sama herskóla og Napóelon Bónaparte, sem var keisari Frakklands á árunum 1804 til 1814, og aftur um skamma hríð ári síðar. Undir hans stjórn lagðist Frakkland í mikla landvinninga, og gerði her hans meðal innrás í Rússland, þar sem Gudin lést.

Talið er að innrásarher Napóleons hafi talið 400 þúsund hermenn og bjóst hann sjálfur við fljótunnum sigri. Annað kom á daginn og að lokum þurfti herinn að hörfa frá Rússlandi.

Eftir að Gudin lést var hjarta hans flutt til Parísar þar sem var grafið, en nafns má finna víða í höfuðborg Frakklands. Er nafn hans grafið í Sigurbogann, líkneski af honum má finna í Versölum auk þess sem að gata í París er nefnd eftir honum.

Aldrei var þó vitað með vissu hvar lík hans var niðurkomið og vona vísindamennirnir að DNA-prófið staðfesti að um lík Gudin sé að ræða og muni því aldargöml ráðgáta um hvar hann hafi hvílt öll þessi ár leysast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×