Innlent

Aðeins ein leið að Háskólanum í Reykjavík vegna framkvæmda

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Hagsmunafulltrúi stúdentafélags Háskólans í Reykjavík biðlar til nemenda að leggja fyrr af stað í skólann vegna vegalokana, en Nauthólsvegur frá Miklabraut verður lokaður vegna framkvæmda og því aðeins ein leið að skólanum.

Framkvæmdir á Nauthólsvegi felast í hækkun vegarins á 400 metra kafla með tilheyrandi ofanvatnslögnum, frágangi lagna fjarskiptafyrirtækja og götulýsingu.

Á þriðjudaginn hefst skólahald Háskólans í Reykjavík að nýju með tilheyrandi bílaumferð.

„Hún er ansi erfið sérstaklega á milli hálf átta til níu þannig þetta getur verið mjög þreytandi,“ sagði Guðlaugur Þór Gunnarsson, hagsmunafulltrúi SFHR.

Í fréttinni kom fram að eins og flestum er kunnugt er umferðin um Miklabraut ansi þung á morgnana og síðdegis. Umferðin verður enn þyngri þegar skólahald Háskólans í Reykjavíkur hefst að nýju í næstu viku þar sem einungis einn vegur er að skólanum vegna framkvæmda.

Eina leiðin að skólanum er frá Bústaðarvegi inn að Flugvallarvegi á meðan framkvæmdir fara fram á Nauthólsvegi út að Miklabraut. Því munu bílar úr öllum áttum þurfa að fara inn Flugvallarveg.

„Það mun vera þannig að allir sama hvaðan þeir koma þurfa að fara í gegnum einn veg og það muni skila sér í mikilli teppu,“ sagði Guðlaugur.

Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að  gert sé ráð fyrir að Malbikun vegarins hefjist í lok næstu viku en út ágústmánuð verði áfram unnið að frágangi meðfram veginum. Þá vísar borgin nemendum og starfsólki fyrirtækja í kring á hjólaleiðir meðfram sjónum.

„Fara fyrr á fætur fyrr af stað og halda ró. Eins ef þú getur fengið far með félaga þá endilega að gera það,“ sagði Guðlaugur.
 

Eins og sjá má er vegurinn lokaður. SKJÁSKOT ÚR FRÉTT


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.