Innlent

Gæti farið svo að skera þyrfti á rafmagn á mestu álagstímunum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Samkvæmt árlegri skýrslu Landsnets um afl og orkujöfnuð í landinu er talið að líkur séu á aflskorti árið 2022. Er þetta byggt á núverandi raforkuframleiðslu, fyrirsjáanlegri uppbyggingu og áætlaðri notkun.

Því hefur löngum verið haldið fram að á Íslandi sé til næg raforka. En breytingar í samfélaginu hafa áhrif á notkunina.

„Ný tækni og aukin tækjanotkun hafa einnig áhrif. Öll sjálfvirkni er í raun keyrð á rafmagni,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Þrjú ár eru ekki langur tími. Sérstaklega í ljósi þess að þær nýju virkjanir sem bætast við á næstu árum eru smáar í sniðum.

Oftast tekur um sjö til fimmtán ár að koma upp stórri vatnsaflsvirkjun. Guðmundur segir að hægt sé að koma upp vindorkuverum á skemmri tíma en þau séu háð veðri.

„Ef við lendum í aflskorti þá eru teknar ákvarðanir um hvar þurfi að skera tímabundið á raforku og á hvaða tímum. Það verður þá á þeim tíma þar sem notkunin er mest,“ segir Guðmundir Ingi.

Að sögn Guðmundar Inga yrði orka þá skorin niður á daginn, og ákveða þyrfti hvort það yrði hjá fyrirtækjum eða einstaklingum. Einnig á hvaða svæðum.

„Það ber ekkert fyrirtæki ábyrgð á að hér sé til næg raforka. Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum í landinu hverju sinni. Við höfum komið þessum skilaboðum til stjórnvalda og teljum að á það sé hlustað,“ segir forstjóri Landnets.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.