Tónlist

Krassa­sig brýtur heilann í nýju lagi

Sylvía Hall skrifar
Lagið er það fyrsta sem Krassasig gefur út undir eigin nafni.
Lagið er það fyrsta sem Krassasig gefur út undir eigin nafni. Hlynur Helgi
Tónlistarmaðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson sendi nýverið frá sér lag en lagið er það fyrsta sem hann gefur út undir eigin nafni. Kristinn, sem notast við listamannsnafnið Krassasig, hefur áður vakið athygli sem einn forsprakka fjöllistahópsins Munstur.

Lagið ber heitið Brjóta heilann og var tónlistarmyndband við lagið frumsýnt á miðvikudag sem hluti af upphitun Landsbankans fyrir Iceland Airwaves. Kristni til halds og trausts voru tónlistarmennirnir Auður og Magnús Jóhann Ragnarsson sem komu einnig að gerð lagsins.

Í samtali við Vísi segir Kristinn að von sé á fleiri lögum frá honum í sumar, í það minnsta tvö til þrjú. Hann er á meðal þeirra sem koma fram á Airwaves í nóvember næstkomandi og líkt og áður hefur komið fram var tónlistarmyndband við lagið gefið út sem hluti af upphitun fyrir hátíðina. 

 Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Kristinn og Auður vinna saman en hann sá áður um leikmyndahönnun fyrir tónleika sem Auður hefur haldið. Samstarfið heldur því áfram í formi tónlistarsköpunar og því verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Þá geta Instagram-notendur glaðst yfir því að í tilefni lagsins var gerður filter í samstarfi við Pétur Eggerz Pétursson og geta því fleiri prófað að brjóta heilann á meðan þeir hlusta á lagið. 

Skjáskot
 Lagið er nú aðgengilegt á Spotify og má heyra það hér að neðan.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×