Erlent

Grunaður morðingi skar sig á háls í dómsal

Kjartan Kjartansson skrifar
Bailey Boswell, sambýliskona Aubrey Trail, í dómsal. Þau eru ákærð fyrir morðið á ungri konu í Nebraska.
Bailey Boswell, sambýliskona Aubrey Trail, í dómsal. Þau eru ákærð fyrir morðið á ungri konu í Nebraska. AP/Eric Gregory

Karlmaður sem grunaður er um að hafa myrt unga konu og bútað lík hennar niður skar sjálfan sig á háls í dómsal í Nebraska í Bandaríkjunum í gær. Hann var fluttur á sjúkrahús en ekki liggur fyrir hvert ástand hans er.

Réttarhöld yfir Aubrey Trail, 52 ára gömlum karlmanni, ásamt félaga hans vegna morðsins á Sydney Loofe, 24 ára gamalli konu, árið 2017 standa nú yfir. NBC-sjónvarpsstöðin segir að Trail hafi skorið sig á háls með ótilgreindum hlut og fallið úr hjólastól sínum í dómsalnum í bænum Wilber í gær.

Trail er sagður hafa hrópað orð til stuðnings sambýliskonu sinnar Bailey Boswell áður en hann féll blóðugur í gólfið. „Bailey er saklaus og ég bölva ykkur öllum,“ er Trail sagður hafa kallað.

Fox-fréttastöðin segir óljóst hvort réttarhöldin haldi áfram og hversu illa særður Trail er. Að sögn embættismanna hefur Trail fengið heilablóðfall og tvö hjartaáföll í fangelsi frá því að hann var handtekinn. AP-fréttastofan segir að dómarinn í málinu hafi sagt kviðdómendum að mæta aftur í dag.

Trail og Boswell eru sökuð um að hafa lagt á ráðin um að myrða Loofe. Boswell hafi kynnst henni í gegnum stefnumótaforritið Tinder þar sem hún gaf upp rangt nafn. Þær hafi ákveðið að hittast í kjölfarið. Lík Loofe fannst síðar bútað í sundur í ruslapoka.

Bæði eiga þau yfir höfði sér dauðarefsingu verði þau sakfelld fyrir morð að yfirlögðu ráði og ólöglega meðferð á líki. Boswell, sem er 25 ára gömul, hefur lýst yfir sakleysi sínu.

Trail heldur því fram að hann hafi kyrkt Loofe sem hluta af kynórum sem hafi verið með vilja þeirra allra og að Boswell hafi hjálpað honum að hylma yfir dauða hennar. Hann hafi drepið Loofe óvart og hann hafi reynt að fela lík hennar því hann hafi ekki talið að lögreglan myndi trúa því að hann hefði drepið hana óviljandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.