Innlent

Íslendingar varaðir við áfengisþambi í hitabylgjunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Áfengi er þvagmyndandi og getur því aukið enn á vökvatap í sól og hita eins og verður á meginlandinu næstu daga.
Áfengi er þvagmyndandi og getur því aukið enn á vökvatap í sól og hita eins og verður á meginlandinu næstu daga. Vísir
Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar til Íslendinga sem eru staddir á meginlandi Evrópu vegna hitabylgju sem búist er við að nái hámarki sínu síðar í vikunni. Aldraðir og ung börn eru sögð í aukinni áhættu vegna hitans og þá er mælt með því að fólk haldi sig frá áfengi.

Spáð er 35-40 gráðu hita í nokkrum löndum á meginlandi Evrópu næstu daga og vikur, þar á meðal Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Sviss og Belgíu. Af því tilefni birti embætti landlæknis leiðbeiningar til þeirra sem hyggja á ferðalög eða eru staddir á meginlandinu um hvernig þeir eigi að takast á við hitann.

Fólki er ráðlagt að drekka vel af vökva því í miklum lofthita eykst svitamyndun og vökvatap verður mikið. Hætta verður því á ofþornun. Þar eru aldraðir og ung börn sögð í sérstakri áhættu. Ekki er þó mælt með því að fólk fái sér bjór eða aðra áfenga drykki sem margir eru gjarnir á að gera á sólríkum stöðum.

„Áfengi og hiti eru slæm blanda, enda er alkóhól þvagmyndandi og getur því aukið enn á vökvatap frá sól og hita,“ segir í tilkynningu landlæknis.

Þá er mælt með því að fólk fari sér hægt í miklum hita, leiti í skugga og haldi sig innandyra þegar hitinn nær hæstu hæðum yfir daginn. Mikilvægt sé að muna eftir sólarvörn og sólhatti þegar sólin er sterk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×