Skoðun
Guðmundur D. Haraldsson

Hvað höfum við gert? Nokkur orð um stefnubreytingu og einstaklingshyggju

Guðmundur D. Haraldsson skrifar

Nú nýverið voru sýndir á RÚV þættirnir Hvað höfum við gert?, þættir sem fjalla um loftslagsbreytingar, neysluhyggju og ofnýtingu auðlinda. Í þessum þáttum – sem eru vel gerðir – er dregin upp dökk mynd af áhrifum neyslumenningar okkar á umhverfið, loftslagið, og á endanum okkur sjálf. Þessir þættir leiða vel í ljós að við, mannskepnan, höfum valdið ótrúlegum breytingum á umhverfi okkar – hvort sem er landslagi, auðlindum eða loftslaginu. Þættirnir leiða einnig fram hvað neysla er stór áhrifaþáttur í loftslagsbreytingum, og lögð er áhersla á að það verði að grípa til aðgerða – en hér komum við að helsta galla þessara annars ágætu þátta: Allar þær aðgerðir sem eru nefndar eru lagðar í hendur einstaklingsins, að hann verði að breyta háttum sínum hið snarasta, ellegar fari illa.

Það er löngu kominn tími á að við sem samfélag tökum alvarlega þau áhrif sem við höfum á umhverfi okkar. Og þessir þættir tengja vel hegðun okkar við þessi áhrif með umfjöllun um iðnbyltingarnar, bruna kolefniseldsneytis, og losun gróðurhúsalofttegunda. Sjónræn nálgun er nýtt til hins ítrasta, sem er heppilegasta formið fyrir okkur mennina, og þá er talað við vísindafólk, fræðimenn, stjórnmálamenn og aðgerðarsinna úr ýmsum áttum, en einnig fólk sem rekur fyrirtæki. Umfjöllunin er góð og vonandi að hún vekji fólk til umhugsunar.

Meginmarkmið þáttanna, sýnist mér, er að vekja fólk til umhugsunar og fá fólk þannig til að breyta hegðun sinni. Þannig er ítrekað talað um í þáttunum um að fólk vonandi taki sig til og hegði sér öðruvísi eftir að útsendingu þáttanna lýkur, að nokkurs konar hugarfarsbreyting heildarinnar og breyting á inngrónu hegðunarmynstri eigi sér stað á kvöldstund eða tveimur. Þetta er kannski – og líklega – ekki það sem þáttagerðarmennirnir höfðu í huga, en þetta er samt útkoman þegar á heildina er litið. Á þessu eru þó undantekningar, eins og þegar félagssálfræðingurinn sem rætt er við í þáttunum við leggur áherslu á að það verði að eiga sér stað breyting á umbunarkerfum, auglýsingaheiminum, og markviss hvatning til endurnýtingar og -notkunar. Það er nefnilega sem er, að það eru litlar sem engar líkur til að hugarfarsbreytingin ein og sér breyti hegðun fjöldans, því miður.

Ég vil hér skjóta inn litlu dæmi um hvernig hugarfar og þekking, eitt og sér, hefur takmörkuð áhrif á hegðun fólks. Það hefur nú verið vitað í áratugi að reykingar og önnur notkun tóbaks hefur alvarleg áhrif á heilsu fólks, en þetta staðfesta hundruðir rannsókna, gerðar yfir áratugalangt tímabil. Engu að síður eru enn þúsundir sem reykja á Íslandi, þótt þeim hafi farið fækkandi, lukkulega. Reykingamönnum hefur að öllum líkindum fækkað fyrir tilstilli hás verðs á tóbaki og vegna kerfisbundins áróðurs sem hefur verið beint gegn reykingum – hvort tveggja er stefna ríkisvaldsins. Þegar það er ekki „töff“ að reykja, og þar að auki dýrt, byrja færri að reykja – fólk fær einfaldlega takmarkaða, ef nokkra, umbun úr umhverfinu til að byrja að reykja eða halda því áfram.

Nú er neysla á ýmsum varningi svolítið af öðru tagi en reykingar, því reykingar eru mjög svo ávanabindandi, en meginskilaboðin eru þó þessi: Það er umbunin og hvatarnir sem skipta miklu máli, sjálf menningin sem við þrífumst í, hún skiptir svo miklu máli, það eru þessir þættir sem hafa svo mikil áhrif á hegðun okkar í daglegu lífi, fremur en bein þekking á afleiðingum þess sem við erum að gera okkur og umhverfi okkar.  Rétt eins og færri byrja að reykja nú en var fyrir hálfri öld, fyrir tilstilli umbunar, menningar og áróðurs, getum við nýtt sams konar aðferðir til að draga úr neyslu og fá fólk til að breyta hegðun sinni. Upplýsingar til fólks vissulega hjálpa, en þær þjóna líka þeim tilgangi að réttlæta aðgerðir og áróður sem beint er gegn skaðlegri hegðun fólks og samfélagsins í heild sinni. Það nákvæmlega sama á auðvitað um fyrirtækin – þau þurfa að breytast, og aðgerðirnar verða að beinast gegn þeim líka, enda eru þau stór þátttakandi í hagkerfinu.

Eina vitræna leiðin til að koma í veg fyrir miklar og óafturkræfar breytingar á loftslaginu og náttúrunni, breytingar sem munu hafa mjög óheilavænleg áhrif á okkur öll sem á þessari jörð búum, er að breyta hegðun fjöldans. Slíkri hegðun verður aðeins breytt með óspennandi aðgerðum eins og breytingum á skattkerfum, takmörkun á auglýsingum, höftum á því hvernig vörum er stillt fram, og áróðri. Engum finnst svona lagað áhugavert, allir vilja eitthvað „nútímalegt“ og „sniðugt“ til að bjarga okkur frá þessari óheillavænlegu þróun sem er í aðsigi – helst „app“ – en raunin er sú að við hvorki þurfum né höfum nokkuð slíkt í höndunum eins og er, og því eðlilegt að nýta það sem við vitum að virkar. Og við vitum að öflug stefnubreyting stjórnvalda virkar. Máttur stefnubreytingar stjórnvalda er sést best á því að þegar vörugjöld voru felld niður á raftækjum, stórjókst innflutningur þeirra.

Þegar loks var komið að síðasta þætti Hvað höfum við gert? átti ég von á að sjá eitthvað um að stjórnvöld yrðu að taka í taumana og innleiða gjörbreyta stefnu, eitthvað sem hönd væri á festandi. Mér til allnokkurra vonbrigða var ekkert slíkt í þessum síðasta þætti – bara upprifjun á því sem áður hafði verið fjallað um. Ég er samt ekkert hissa. Við öll, sem samfélag, lítum á öll vandamál sem eitthvað sem einstaklingurinn verður að bregðast við, fremur en heildin – jafnvel þótt það sé algerlega ljóst að loftslagsbreytingarnar og ofnýting náttúruauðlinda séu orsakaðar af heildinni og því vandamál sem heildin verður að takast á við. Þetta er í raun og veru kjarni einstaklingshyggju af harðasta tagi: Öll vandamál eiga sér rót í einstaklingum og það er hans að taka þeim – ekki okkar hinna. Við erum sem samfélag, svo gegnsýrð af einstaklingshyggju, að við komum ekki auga á hvernig við eigum eiginlega að komast í veg fyrir þessi umhverfisvandamál sem að okkur steðja – en þetta nær líka til kvikmyndagerðarmannanna, enda bara mannlegir eins og við hin. Á engan hátt er hægt að áfellast þá, enda þátttakendur í samfélagi eins og við öll – og eflaust eru þeir líka undir þrýstingi um að vera ekki um of pólítískir í störfum sínum.

Það er hins vegar hægt að grípa til aðgerða sem eru raunhæfar, og um þær verður fjallað í næsta pistli.

Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.