Innlent

Erfitt að ráða í stjórnendastöður á leikskólum

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar

Leikskólar Reykjavíkur standa frammi fyrir mönnunarvanda þegar kemur að ráðningum í stjórnendastöður. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hefur áhyggjur af stöðunni, borgin sé að rýna í málið.  Samræma þurfi kröfur til stjórnenda í skólakerfinu til að auðvelda starfið.

Nýlega voru auglýstar tvær leikskólastjórastöður við leikskóla í Reykjavík en aðeins ein umsókn barst. Leikskólastjórar hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Frá árinu 2015 hefur verið hreyfing á 22 leikskólastjórastöðum. Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði leikskólastjóri þetta mikið áhyggjuefni og að einnig sé erfitt að fá deildarstjóra og sérkennara.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs, tekur undir þessar áhyggjur og segir ýmsar ástæður að baki. „Bæði að það sé flóknara rekstrarumhverfi heldur en á árum áður. Svo eru ýmsar opinberar kröfur sem hafa verið að aukast á skólana, svo má líka segja að fagumhverfið sé breytt, þar sem það er að fækka í hópi leikskólakennara í leikskólum. Svo eru blikur á lofti varðandi grunnskólanna líka varðandi þetta. Þá mæðir meira á stjórnendum,“ segir hann.

Einsog staðan er í dag eru 113 stöðugildi ómönnuð í leikskólunum, staðan er þó talin betri en oft áður. Leikskólastjórar benda á að lítil sem engin endurnýjun sé í faginu, þeir sem fara í námið séu oftar enn ekki nú þegar að vinna á leikskólum. Einnig fækki hratt á gólfinu því leikskólakennarar séu settir tímabundið í stjórnendastöður til að mæta vandanum.

Helgi segir að vinnuhópar séu að rýna í starfsumhverfið. „Til þess að greina betur álagsþætti og líka um leið til að finna hvað við getum gert til þess að gera þetta mikilvæga starf ákjósanlegra til þess að fleiri sæki um,“ segir hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.