Pepsi Max-mörkin: „Framganga Marmolejo til skammar“

Spænski markvörðurinn Francisco Marmolejo Mancilla lék sinn fyrsta leik fyrir Víking R. þegar liðið bar sigurorð af HK, 2-1, í 8. umferð Pepsi Max-deildar karla á föstudaginn.
Undir lok leiksins lá Marmolejo tvisvar lengi eftir eins og hann gerði oft og iðulega þegar hann lék með Víkingi Ó. í Inkasso-deildinni í fyrra.
Hörður Magnússon og sérfræðingar Pepsi Max-markanna voru ekki hrifnir af tilburðum Marmolejo í leiknum gegn HK.
„Það verður að segjast alveg eins og er að framganga hans undir lokin var til skammar,“ sagði Hörður.
„Hann þykist vera meiddur og liggur í eina mínútu og 50 sekúndur. Og svo í 50 sekúndur. Þetta er svo ömurlegt,“ bætti Hörður við.
Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, bætti 7-8 mínútum við venjulegan leiktíma. Strákarnir veltu því fyrir sér hvort eða hvernig væri hægt að refsa mönnum í svona tilvikum.
„Við vitum allir að hann er ekki meiddur. Það kom ekkert fyrir hann. Er hægt að spjalda hann? Ég þekki það ekki. Þetta er allavega ekki í anda leiksins,“ sagði Reynir Leósson.
„Við höfum séð þetta til hans og þetta er ömurleg hegðun. En ég held að það sé dómarans að stoppa þetta og láta hann ekki komast upp með þetta,“ sagði Atli Viðar Björnsson.
Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.
Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - HK 2-1 | Víkingar vígðu nýjan völl með sigri
Víkingur unnu sinn fyrsta leik í sumar er liðið spilaði sinn fyrsta leik á nýju gervigrasi í Víkinni.

Sjáðu markaveisluna úr leikjum kvöldsins í Pepsi Max-deildinni
Áttunda umferð Pepsi Max-deildar karla hófst í kvöld með þremur leikjum. Fjórtán mörk voru skoruð í þeim.

Sölvi Geir: Þetta var æðislegur dagur
Fyrirliði Víkings R. var létt eftir sigurinn á HK í blíðunni í Fossvoginum í kvöld.