Enski boltinn

Félagsskiptabann Chelsea gott fyrir Lampard

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frank Lampard fagnar góðum sigri Derby í vetur.
Frank Lampard fagnar góðum sigri Derby í vetur. Getty/Stephen Pond
Félagsskiptabannið sem Chelsea á yfir höfði sér myndi hjálpa Frank Lampard taki hann við stöðu knattspyrnustjóra hjá sínu gamla félagi.

Maurizio Sarri yfirgaf í gær Chelsea fyrir Juventus, en skipti Sarri höfðu legið í loftinu undanfarnar vikur. Lampard er efstur á óskalista þeirra bláklæddu í að taka við starfinu.

Paul Merson, knattspyrnusérfræðingur Sky Sports, segir að félagsskiptabann Chelsea taki pressu af herðum Lampard.

Lampard, sem myndi kosta Chelsea 4 milljónir punda, á aðeins að baki eitt tímabil sem knattspyrnustjóri en hann stýrði Derby County í úrslitaleik umspilsins um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili.

Hann er því enn nokkur nýliði í knattspyrnustjórastarfinu. Lampard er hins vegar goðsögn á meðal stuðningsmanna Chelsea.

„Það er ekki eins og Chelsea sé að fá inn stjóra sem þarf að eiga við 70, 80, 90 milljón punda félagsskipti og pressu að kaupa inn nýja leikmenn. Í þeirri stöðu hefur Lampard enga reynslu,“ sagði Merson.

„Ole Gunnar Solskjær er búinn að stýra Molde og Cardiff og hann þarf að fá inn leikmenn í hæsta gæðaflokki. En Frank, hann kemur inn og liðið er tilbúið.“

„Stuðningsmennirnir munu sýna honum þolinmæði því hann er goðsögn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×