Innlent

Lúsmý herjar á landann: Stera- og kláðastillandi krem seldust upp í Lyfju í Lágmúla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lúsmýið er hvimleitt enda geta bit þess valdið miklum óþægindum.
Lúsmýið er hvimleitt enda geta bit þess valdið miklum óþægindum. vísir/vilhelm
Sterakremið Mildison seldist upp í Lyfju í Lágmúla um helgina en von er á nýrri sendingu núna á milli átta og níu.  

Kremið er notað við flugnabitum en eins og Vísir greindi frá í gær er lúsmý ekki lengur aðeins að finna í sumarhúsabyggðum á suðvesturhorninu og á Suðurlandi heldur virðist það nú einnig komið til höfuðborgarsvæðisins.

Þá er deyfigelið Xylocain einnig notað við flugnabitum og er það líka uppselt í Lyfju í Lágmúla að sögn Borghildar Eiríksdóttur lyfjafræðings í apótekinu.

Borghildur segir að mjög mikil eftirspurn hafi verið eftir stera- og kláðastillandi kremum og hefur salan því aukist mjög mikið.

Þá eru flugnafælurnar einnig vinsælar en í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að nánast hver einasta flugnafæla í Apótekaranum á Selfossi sé uppseld. Þar á bæ hafa menn ekki kynnst öðru eins en apótekið er skammt frá sumarhúsabyggðum í Grímsnesi þar sem lúsmýið hefur herjað á fólk.

Auk krema og fælna er einnig hægt að fá ofnæmistöflur í lausasölu sem draga úr kláðanum en gera ekkert við bitinu sjálfu. Aðspurð segir Borghildur að kremin sem borin séu á staðbundið séu fljót að byrja að virka.

„Mildison-ið dregur úr bólgunni og kláðanum, það tekur aðeins lengri tíma að virka heldur en Xylocain-ið sem er bara staðdeyfandi og dregur algjörlega úr kláða en gerir ekkert fyrir bólguna. Mildison-ið er sterakrem og eins og með þannig krem þá er það með aukaverkanir. Þannig að þetta fer allt eftir því hvort þú viljir bara losna við sársaukanum og óþægindin sem fylgja bitinu eða hvort þú viljir losna við allt bitið,“ segir Borghildur.

Bæði Mildison og Xylocain eru seld í lausasölu og þarf því ekki lyfseðil til að kaupa þau úti í apóteki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×