Lífið

Sótti innblástur í blaðakonuna sem afhjúpaði Cambridge Analytica hneykslið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rithöfundurinn Sif Sigmarsdóttir sótti innblástur í blaðakonuna sem afhjúpaði Cambridge Analytica hneykslið þegar hún skrifaði norrænu glæpasöguna The Sharp Edge of a Snowflake.
Rithöfundurinn Sif Sigmarsdóttir sótti innblástur í blaðakonuna sem afhjúpaði Cambridge Analytica hneykslið þegar hún skrifaði norrænu glæpasöguna The Sharp Edge of a Snowflake.
„Ég er fréttafíkill og bækurnar mínar eru eiginlega alltaf innblásnar af því sem er að gerast í heiminum hverju sinni.“

Þetta segir Sif Sigmarsdóttir rithöfundur sem gefur út skáldsöguna The Sharp Edge of A Snowflake sem kemur út í lok mánaðar. Fréttatengdir atburðir á borð við Me Too hreyfinguna og Cambridge Analytica hneykslið voru henni ofarlega í huga þegar hún skrifaði bókina.

„Tvær konur sem ég hef aldrei hitt voru innblásturinn að The Sharp Edge of a Snowflake. Önnur þeirra er leikkonan Rose McGowan sem er ein þeirra kvenna sem stuðlaði að falli kvikmyndamógúlsins Harvey Weinstein. Hin er breski blaðamaðurinn Carole Cadwalladr,“ segir Sif í samtali við fréttastofu.

Carole Cadwalladr afhjúpaði Cambridge Analytica hneykslið en greiningarfyrirtækið notaði persónuupplýsingar Facebook notenda til að búa til gagnagrunn sem notaður var til að sníða pólitískt efni að fólki. Fyrirtækið vann fyrir samtök sem vildu að Bretar gengu úr Evrópusambandinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016. Þá var fyrirtækið til ráðgjafar kosningaliði Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

„Segja má að fyrirtækið hafi skyggnst inn í innstu hugsanir okkar og sálarlíf án leyfis og notað veikleika okkar, vonir og þrár til að heilaþvo okkur í pólitískum tilgangi. Fyrirtækið notaði mjög svo vafasamar aðferðir til að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar.“

Í Bretlandi hefur loft verið lævi blandið eftir erfiðleikana í kringum Brexit. Sif er búsett í Lundúnum þannig að hún hefur náð að fylgjast náið með gangi mála.

The Sharp Edge of a Snowflake fjallar um Hönnu, hálf-íslenska stelpu sem býr í Lundúnum. Þegar móðir hennar fellur frá flyst hún til Íslands til föður síns sem hún þekkir ekki mikið. Hún fær fljótlega vinnu sem blaðamaður og er falið að taka viðtal við samfélagsmiðlastjörnu sem er að koma til landsins. Þegar umrædd samfélagsmiðlastjarna er handtekin fyrir morð einsetur Hanna sér að sanna sakleysi hennar. Hlutirnir eru þó flóknari en þeir virðast í fyrstu og Hanna kemst á snoðir um fyrirætlanir alþjóðlegs markaðsfyrirtækis sem misnotar persónuupplýsingar fólks um allan heim til að græða peninga.



Blaðakonan hundelt af Alt-right

„Fréttir Carole Cadwalladr breyttu því hvernig við lítum á persónuupplýsingar okkar. Við erum meðvitaðri um fótsporin sem við skiljum eftir okkur á internetinu. Margir líta Facebook öðrum augum eftir að upp komst um hneykslið. Ímynd fyrirtækisins hefur beðið hnekki.“

En þótt Cadwalladr hafi hlotið lof fyrir umfjöllun sína hefur líf hennar ekki verið dans á rósum.

„Hún er hundelt af alt-right (hitt hægrið) liði í Bretlandi og Bandaríkjunum og Twitter tröllin láta hana ekki í friði. Það eru auðvitað miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bæði Facebook og fleiri og peningaöflin standa með andstæðingum hennar. En hún lætur þetta ekki á sig fá og heldur rannsóknarblaðamennsku sinni áfram,“ segir Sif sem mælir með TED-fyrirlestri sem fór sem eldur í sinu um internetið.

Spurð að því hvort henni hefði ekki þótt erfitt að flétta flókið umfjöllunarefni á borð við misnotkun á persónuupplýsingum inn í glæpasögu svarar Sif því til að fólk á öllum aldri sé í auknum mæli farið að vakna til vitundar um afleiðingar þess að leyfa stórfyrirtækjum að fara með persónuupplýsingar sem sína eign.

„Það eru engin takmörk fyrir því í hvað er hægt að nota slík gögn. Í bókinni minni beinir fyrirtæki til dæmis sérsniðnum auglýsingum um megrunarlyf að ungum stúlkum sem persónuupplýsingar á internetinu gefa til kynna að þjáist af átröskun, litlu sjálfsáliti og bjagaðri sjálfsmynd. Það kæmi mér ekki á óvart þótt einhver væri að gera þetta nú þegar,“ segir Sif. Bókin sé ætluð eldri unglingum, ungmennum og fullorðnum.

Kannski var þetta tilraun mín til að stúta feðraveldinu

The Sharp Edge of a Snowflake er norræn glæpasaga en í kynningu á bókinni hefur henni verið líkt við Nancy Drew og The Girl With The Dragon Tattoo.

„Það sem einkennir þessar bækur er auðvitað sú staðreynd að þær fjalla um glæp, oftast morð. En það sem setur líka svip sinn á þessa bókmenntategund er samfélagsádeilan. Höfundur beinir sjónum að einhverju sem miður fer í samtímanum. Ég er til dæmis að skoða hættur internetsins og þau áhrif sem það hefur á sjálfsímynd, samskipti fólks, viðskipti og samfélagið allt,“ útskýrir Sif.

„Það má segja að bókin sé feminísk. Fórnarlambið í bókinni er til dæmis ekki eins og oft er ósjálfbjarga kona sem myrt er með hrottafullum hætti. Fórnarlambið er miðaldra, millistéttakall. Ég var spurð hvort hann væri táknmynd feðraveldisins. Ég sprakk úr hlátri og svaraði því neitandi. En hver veit hvað undirmeðvitund mín var að pæla. Kannski var þetta tilraun mín til að stúta feðraveldinu.“

Sif er búsett í Lundúnum og skrifar jöfnum höndum á íslensku og ensku.
Sif skrifar jöfnum höndum á ensku og íslensku. Hún hefur getið sér gott orð á Íslandi fyrir fréttapistlana sem hún hefur birt í Fréttablaðinu undanfarin ár.

„Það má eiginlega segja að líf mitt sé klofið í tvennt. Annars vegar skrifa ég fréttapistla og bækur á íslensku og hins vegar skrifa ég fréttir og bækur á ensku. Þessir tveir heimar skarast lítið og þegar ég vakna á morgnana vakna ég ýmist inn í íslenskan veruleika eða enskan. Stundum eru mörkin þó ekki alveg skýr og hausinn á mér verður hálfgerður grautur – ég opna munninn og ég man ekki hvort ég var að tala íslensku eða ensku.“

Fyrsta bókin sem Sif skrifaði kemur út í íslenskri þýðingu í haust.

„Þessir heimar skarast þó samt því fyrsta bókin sem ég skrifaði á ensku kemur út í íslenskri þýðingu nú í haust. Sú heitir Ég er svikari og kom út hér í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári. Ferlið í kringum útgáfu bókarinnar á íslensku var mikil opinberun. Ég hafði alltaf ímyndað mér að ég myndi þýða bókina sjálf á íslensku en svo hafði ég ekki tíma til þess. Forlagið, útgefandinn minn, fékk því frábæran þýðanda í verkið, Höllu Sverrisdóttur,“ segir Sif gerir grein fyrir hinu mikilvæga starfi þýðandans.

Bókin kemur út í Bretlandi í lok júní.

Þýðandinn grópar sig inn í sál bókarinnar

„Þegar ég fékk þýðinguna í hendur áttaði ég mig á einu. Skáldsögur eru eingetnar. Þær eiga eitt foreldri sem er höfundurinn. Þýðingar eiga hins vegar tvo foreldra. Þegar ég las þýðinguna var þetta ekki lengur bara bókin mín. Jú, sagan var sú sama, orðin þýddu það sama og þau þýddu á ensku. En tónninn var ekki lengur bara minn. Andinn var ekki bara minn. Þetta var sameiginlegt afkvæmi okkar Höllu.

Ég hef sjálf fengist við þýðingar og ég hafði einhvern veginn aldrei áttað mig á hvað situr mikið af þýðandanum eftir í verkinu að þýðingu lokinni. Þýðandinn mótar tón bókarinnar á því tungumáli sem hann þýðir á, hann grópar sig inn í sál bókarinnar. Ég var því heppin að fá svona frábæran þýðanda eins og Höllu.“

Sif segir að lokum að þrátt fyrir að markmið hennar sé að fólk vakni til vitundar um meðferð persónuupplýsinga þá vonar hún fyrst og fremst að bókin verði fólki góð skemmtun.


Tengdar fréttir

Með áhyggjur af afskiptum Bannons

Evrópusambandið vinnur nú að því að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta sem kunna að hafa áhrif á Evrópuþings­kosningarnar í vor.

Zuckerberg óttast alræðisríki

Forstjóri Facebook óttast kröfur um að persónuleg gögn verði vistuð í gagnaverum í hverju landi fyrir sig. Vill ekki að alræðisríki geti stolið upplýsingum um þegna sína. Ætlar að hundsa allar slíkar kröfur.

Facebook sagt rúið öllu trausti

Valdafólk bálreitt eftir að NYT greindi frá því að Facebook hefði látið skrifa falsfréttir sem tengdu gagnrýnendur miðilsins við eitt helsta skotmark öfgaíhaldsmanna. Zuckerberg segist ekki hafa vitað af ráðningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×