Viðskipti innlent

Jónas ráðinn framkvæmdastjóri Kaldalóns

Sylvía Hall skrifar
Jónas Þór Þorvaldsson.
Jónas Þór Þorvaldsson. Aðsend
Jónas Þór Þorvaldsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunarfélagsins Kaldalóns eftir aðalfund félagsins í gær en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þá lagði stjórn félagsins til að félagið yrði skráð á First North markaðinn í sumar.

Kaldalón var stofnað árið 2017 og sérhæfir sig í þróun íbúðabyggða og húsbyggingum. Félagið hefur fjárfest í lóðum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í Vogabyggð, Kársnesi, Urriðaholti og Steindórsreit. Áætlað er að byggðar verði yfir 900 íbúðir á lóðunum.

Á fundinum var ársreikningur félagsins kynntur og var hagnaður af rekstri félagsins á síðasta ári rúmlega 388 milljónir króna. Eigið fé félagsins nam rúmum 3,2 milljörðum króna í lok árs.

„Kaldalón vinnur að mörgum mjög mikilvægum og áhugaverðum þróunarverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Félagið stendur vel og fram undan eru spennandi tímar við uppbyggingu á verkefnum félagsins og skráningu þess á markað. Ég hlakka til að hefjast handa við að leiða þessi metnaðarfullu verkefni,” er haft eftir Jónasi í fréttatilkynningu.

Jónas var áður framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Festis árin 2015 til 2018. Þar áður var hann framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Landfesta og fasteignafélagsins Stoða hf. Þá sat hann í stjórn félagsins 101 Skuggahverfi hf. á árunum 2003 til 2007.

Stjórn félagsins skipa þau Þórarinn Arnar Sævarsson, stjórnarformaður, Steinþór Ólafsson og Helen Neely.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×