Sport

Þrjú gull á lokadegi frjálsíþróttakeppninnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dagbjartur Daði vann gull í spjótkasti
Dagbjartur Daði vann gull í spjótkasti mynd/frí
Íslenska frjálsíþróttafólkið náði í þrjú gullverðlaun á lokadegi frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna í Svartfjallalandi í dag.

Ísak Óli Traustason byrjaði daginn á silfri í 110 metra grindahlaupi þegar hann hljóp á 14,85 sekúndum en það er hans besti árangur. María Rún Gunnlaugsdóttir fékk brons í 100m grindahlaupi kvenna á 14,65 sekúndum.

Irma Gunnarsdóttir stökk í fyrsta skipti yfir 12 metra í þrístökki þegar hún fór 12,09 metra sem skiluðu henni bronsi.

Fyrsta gull Íslands kom í spjótkasti þar sem Dagbjartur Daði Jónsson kastaði 77,58 metra. Það er aldursflokkamet 20-22 ára.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth voru með yfirburði í spretthlaupskeppnum leikana. Guðbjörg fékk gull í 200 metra hlaupi á 24,26 sekúndum og Tiana Ósk tók silfrið á 24,52 sekúndum. Þær tóku einnig gull og silfur í 100 metra hlaupi á miðvikudag.

Ívar Kristinn Jasonarson náði silfri í 200 metra hlaupi karla en hann hljóp á 21,90 sekúndum. Arnar Pétursson fékk brons í 10 km hlaupi á 31:01,54 mínútum.

Kristín Karlsdóttir fékk brons í kringlukasti með kasti upp á 49,77 metra.



Þriðja gull Íslands kom í boðhlaupi en íslenska 4x400m sveit kvenna náði gullinu á 3:49,42 mínútum. Í sveitinni voru Guðbjörg Jóna, Fjóla Signý Hannesdóttir, María Rún og Þórdís Eva Steinsdóttir. 

Í heildina á leikunum fékk Ísland níu gull, níu silfur og átta brons. Það skilaði íslenska hópnum í annað sæti yfir verðlaun í frjálsíþróttakeppninni en Kýpur var þar efst með 10 gull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×