Sport

Þrjú gull á lokadegi frjálsíþróttakeppninnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dagbjartur Daði vann gull í spjótkasti
Dagbjartur Daði vann gull í spjótkasti mynd/frí

Íslenska frjálsíþróttafólkið náði í þrjú gullverðlaun á lokadegi frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna í Svartfjallalandi í dag.

Ísak Óli Traustason byrjaði daginn á silfri í 110 metra grindahlaupi þegar hann hljóp á 14,85 sekúndum en það er hans besti árangur. María Rún Gunnlaugsdóttir fékk brons í 100m grindahlaupi kvenna á 14,65 sekúndum.

Irma Gunnarsdóttir stökk í fyrsta skipti yfir 12 metra í þrístökki þegar hún fór 12,09 metra sem skiluðu henni bronsi.

Fyrsta gull Íslands kom í spjótkasti þar sem Dagbjartur Daði Jónsson kastaði 77,58 metra. Það er aldursflokkamet 20-22 ára.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth voru með yfirburði í spretthlaupskeppnum leikana. Guðbjörg fékk gull í 200 metra hlaupi á 24,26 sekúndum og Tiana Ósk tók silfrið á 24,52 sekúndum. Þær tóku einnig gull og silfur í 100 metra hlaupi á miðvikudag.

Ívar Kristinn Jasonarson náði silfri í 200 metra hlaupi karla en hann hljóp á 21,90 sekúndum. Arnar Pétursson fékk brons í 10 km hlaupi á 31:01,54 mínútum.

Kristín Karlsdóttir fékk brons í kringlukasti með kasti upp á 49,77 metra.

Þriðja gull Íslands kom í boðhlaupi en íslenska 4x400m sveit kvenna náði gullinu á 3:49,42 mínútum. Í sveitinni voru Guðbjörg Jóna, Fjóla Signý Hannesdóttir, María Rún og Þórdís Eva Steinsdóttir. 

Í heildina á leikunum fékk Ísland níu gull, níu silfur og átta brons. Það skilaði íslenska hópnum í annað sæti yfir verðlaun í frjálsíþróttakeppninni en Kýpur var þar efst með 10 gull.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.