Enski boltinn

Karla- og kvennalið Manchester City með sameiginlega skrúðgöngu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðiar Manchester City með bikarinn eða þau Vincent Kompany og  Steph Houghton.
Fyrirliðiar Manchester City með bikarinn eða þau Vincent Kompany og Steph Houghton. Vísir/SaMSETT/Getty

Það er gaman að vera stuðningsmaður Manchester City í dag og stuðningsmenn félagsins fá tækifæri til að fagna frábæru tímabili í Manchester á götum borgarinnar á eftir.  

Karlalið Manchester City tryggði sér sögulega heimaþrennu um helgina með sigri í ensku bikarkeppninni en það verður ekki bara karlaliðið sem ætlar að fagna með stuðningsmönnum sínum í dag.

Meistaraflokkar Manchester City unnu nefnilega sex titla á þessari leiktíð. Karlaliðið vann fjóra að Samfélagskildinum meðtöldum en kvennaliðið vann tvo. Bæði unnu þau ensku bikarkeppnina og enska deildabikarinn.Bæði karla- og kvennalið Citu ætla að fagna góðum árangri saman í dag og er þetta til mikillar fyrirmyndar hjá Englandsmeisturunum.

Oftar en ekki þurfa konurnar að sætta sig við það að vera í skugganum af körlunum og sum af stærstu félögum Englands voru lengi ekki einu sinni með kvennalið. Það er allt saman að breytast sem betur fer og kvennafótboltinn í Englandi er farinn að fá mun meiri athygli á síðustu misserum.

Kvennalið Manchester City hefur lengi verið í fremstu röð. Liðið náði reyndar ekki að vinna enska titilinn í ár en vann báðar bikarkeppninnar. Þetta er önnur tvenna félagsins en liðið vann ensku deildina og enska deildabikarinn 2016.

Hér fyrir neðan má sjá hvar leið skrúðgöngunnar liggur í dag en hún hefst klukkan fjögur að breskum tíma eða klukkan þrjú að íslenskum tíma. Það verður örugglega hægt að fylgjast vel með henni á samfélagsmiðlum Manchester City.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.