Handbolti

Bjarki Már og Arnór geta hjálpað Alfreð að landa titlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið.
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið. vísir/getty
Alfreð Gíslason vann um helgina EHF-bikarinn með þýska stórveldinu Kiel og er því morgunljóst að hann kveður félagið í sumar með tveimur titlum á þessu tímabili eftir að vinna bikarinn líka.

Þetta var hvorki meira né minna en 20. titilinn sem að Alfreð vinnur sem þjálfari Kiel á glæstum ellefu árum hjá félaginu en hann hefur sex sinnum orðið Þýskalandsmeistari, sex sinnum bikarmeistari, unnið Meistaradeildina tvisvar sinnum og nú EHF-bikarinn auk fleiri titla.

Alfreð hefur ekki gert Kiel að Þýskalandsmeistara síðan árið 2015 og útlitið gæti verið betra þegar að þjár umferðir eru eftir en öll von er ekki úti enn. Flensburg er í toppsætinu, tveimur stigum á undan Kiel þegar að þrjár umferðir og sex stig eru eftir í pottinum.

Kiel á nokkuð þægilega leiki á eftir gegn Minden og Hannover á heimavelli og Lemgo á útivelli en lærisveinar Alfreðs unnu fyrri leiki liðanna alla nokkuð sannfærandi.

Flensburg á aðeins erfiðara prógram eftir en það mætir Stuttgart í næsta leik sem er öruggur sigur en eftir það eru leikir gegn Füchse Berlín á heimavelli og svo gegn spútnikliði Bergischer á útivelli í lokaumferðinni.

Bjarki Már Elísson og félagar í Füchse geta lagt stein í götu Flensburg á leiðinni að titlinum 29. maí og þannig hjálpað Alfreð að kveðja Kiel með Þýskalandsmeistaratitli og sömu sögu má segja um Arnór Þór Gunnarsson og félaga hans í Bergischer.

Flensburg vann leikina á móti þessum liðum í fyrri umferðinni nokkuð þægilega og er ansi líklegt til þess að klára mótið með þremur sigrum og vinna deildina annað árið í röð. Alfreð þarf allavega að treysta á hjálp frá íslensku landsliðshornamönnunum.

Staðan á toppnum:

1. Flensburg 58 stig (+169)

2. Kiel 56 stig (+180)

Síðustu þrír hjá Flensburg:

23.05 Stuttgart - Flensburg (fyrri leikur 29-21 sigur)

29.05 Flensburg - Füchse Berlín (fyrri leikur 30-25 sigur)

09.06 Bergischer - Flensburg (fyrri leikur 25-23 sigur)

Síðustu þrír hjá Kiel:

26.05 Kiel - Minden (fyrri leikur 37-29 sigur)

29.05 Lemgo - Kiel (fyrri leikur 28-24 sigur)

09.06 Kiel - Hannover (fyrri leikur 32-25 sigur)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×