Erlent

Tímamótaborgarstjóri í Chicago

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Lightfoot ásamt eiginkonu og dóttur við innsetninguna.
Lightfoot ásamt eiginkonu og dóttur við innsetninguna. Fréttablaðið/Getty

Tímamót urðu í stjórnmálasögu Chicago, þriðju stærstu borg Bandaríkjanna, í gær þegar Demókratinn Lori Lightfoot sór embættiseið borgarstjóra. Lightfoot er fyrsta þeldökka konan sem tekur við stjórn borgarinnar og einnig fyrsti borgarstjóri hennar sem er opinberlega samkynhneigður.

Lightfoot nýtur gríðarlegra vinsælda í borginni en hún fékk 75 prósent atkvæða í nýafstöðnum kosningum.

„Brúnir og þeldökkir krakkar í þessari borg ættu að alast upp vitandi að þau geta orðið hvað sem er og elskað hvern sem þeim sýnist. Þannig er mín Chicago. Það get ég sagt nú þegar ég hef verið svarin í embætti borgarstjóra fyrst þeldökkra kvenna og fyrst samkynhneigðra,“ sagði Lightfoot í innsetningarræðu sinni í gær og uppskar gríðarleg fagnaðarlæti. Fjölmiðlum vestanhafs ber saman um að athöfnin hafi verið mjög tilfinningaþrungin jafnt fyrir hinn nýja borgarstjóra sem alla viðstadda.

Barátta gegn spillingu var eitt af helstu kosningamálum Lightfoot og hefur hún beint spjótum sínum sérstaklega að einstaklingsbundnu skipulagsvaldi sem bogarfulltrúar hafa notið hver á sínu svæði í borginni. Fyrirkomulagið hefur tíðkast um árabil og verið gróðrarstía ógegnsærra fyrirgreiðslustjórnmála og spillingar. Steig Lightfoot fyrsta skrefið í átt að okum þessa fyrirkomulags strax að lokinni innsetningu í gær með undirritun nýrrar reglugerðar um skipulagsmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.