Íslenski boltinn

Fjögur gul spjöld í fimm leikjum og fyrirliðinn kominn í bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Páll Sigurðsson verður ekki með á móti Breiðabliki.
Haukur Páll Sigurðsson verður ekki með á móti Breiðabliki. vísir/bára
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, var úrskurðaður í eins leiks bann þegar að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman í gær en miðjumaðurinn sterki er búinn að fá fjögur gul spjöld í fyrstu fimm umferðunum sem þýðir sjálfkrafa leikbann.

Haukur Páll er búinn að byrja alla leiki Valsliðsins sem hefur farið illa af stað og tapaði síðast fyrir FH, 3-2, í Kaplakrika á mánudagskvöldið en þar meiddist Haukur og var óvíst um þátttöku hans í næsta leik á móti Breiðabliki sem fram fer á sunnudagskvöldið.

Hvort sem hann verður klár í slaginn eða ekki fær hann ekki að taka þátt í leiknum vegna leikbannsins en Valur er með fjögur stig í níunda sæti og Blikar tíu stig í öðru sæti eftir tap gegn ÍA, 1-0, í síðustu umferð.

Felix Örn Friðriksson, varnarmaður ÍBV, verður einnig í banni þegar að ÍBV heimsækir KA á laugardaginn en hann fékk rautt spjald í 1-1 jafnteflinu á móti Víkingi í síðustu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×