Fótbolti

Rosalegur dagur hjá Dortmund á markaðnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Brandt í búningi Borussia Dortmund.
Julian Brandt í búningi Borussia Dortmund. Mynd/Twittersíða Borussia Dortmund
Borussia Dortmund missti af þýska meistaratitlinum eftir hrun á lokasprettinum og Bayern München fagnað sigri í þýsku Bundesligunni sjöunda árið í röð. Grátleg niðurstaða fyrir lið Dortmund eftir frábært tímabil.

Dortmund var meðal annars með níu stiga forystu á Bæjara í janúar en allt kom fyrir ekki. Ekkert annað lið en Bayern hefur unnið titilinn síðan að Dortmund vann hann síðast tvö ár í röð undir stjórn Jürgen Klopp frá 2011 til 2012.

Það er aftur á móti enginn uppgjafartónn í herbúðum Borussia Dortmund sem sést á flugeldasýningu félagsins þegar félagsskiptamarkaðurinn opnaði á ný.





Borussia Dortmund keypti nefnilega þrjá öfluga leikmenn í gær. Liðið keypti bakvörðinn Nico Schulz frá Hoffenheim, miðjumaninn Julian Brandt frá Bayer Leverkusen og Thorgan Hazard sem er bróðir Eden Hazard hjá Chelsea. Dortmund keypti Thorgan Hazard frá Borussia Mönchengladbach.

Nico Schulz er sókndjarfur bakvörður sem ætti að henta leikstíl Borussia Dortmund vel og fyllir líka í stöðu sem hefur verið veik hjá liðinu.

Thorgan Hazard átti mjög flott tímabil með Gladbach þar sem hann var með 10 mörk og 10 stoðsendingar í 33 leikjum. Hann var besti leikmaður síns liðs og ætti að vera detta inn á sín bestu ár í boltanum.

Flestir bjuggust við að sjá Julian Brandt enda hjá Bayern München en Dortmund var á undan og fékk hann líka fyrir aðeins 25 milljónir evra sem þykir ekki mikill peningur í dag. Brandt hefur ekki viljað fara frá Leverkusen undanfarin ár en ensk stórlið eins og Liverpool, Tottenham, og Manchester United höfðu áhuga á þessum 23 ára þýska landsliðsmanni.

Hjá Dortmund hafa margir leikmenn sprungið út á síðustu árum, menn eins og Robert Lewandowski, Marco Reus, Shinji Kagawa og Ousmane Dembélé. Það verður því fróðlegt að sjá hvað þeir Nico Schulz, Thorgan Hazard og Julian Brandt gera í býflugnabúningnum á næstu leiktíð.


























Fleiri fréttir

Sjá meira


×