Lífið

Leikari með umdeildan nafnlausan Twitter-aðgang: „Jæja það hlaut að koma að því“

Sylvía Hall skrifar
Þórir stofnaði nafnlausa aðganginn innan við mánuði eftir að hann var látinn fara frá Þjóðleikhúsinu vegna typpamyndar sem hann sendi á fimmtán ára stúlku.
Þórir stofnaði nafnlausa aðganginn innan við mánuði eftir að hann var látinn fara frá Þjóðleikhúsinu vegna typpamyndar sem hann sendi á fimmtán ára stúlku. Vísir/GVA

Í dag kom í ljós að leikarinn Þórir Sæmundsson væri á bak við nafnlausa Twitter-aðganginn @BoringGylfiSig en umræða um aðganginn hefur farið hátt á meðal Íslendinga á samskiptaforritinu. Aðgangurinn, sem var stofnaður í desember 2017, er settur upp undir nafni knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar sem nokkurs konar ádeiluaðgangur og hefur alla tíð verið nafnlaus.

Í dag birti svo sálfræðineminn Karólína Jóhannsdóttir skjáskot af færslu sem @BoringGylfiSig birti í gær þar sem má sjá skjáskot af Instagram. Í neðra horni skjáskotsins mátti sjá prófílmynd þess sem átti umræddan Instagram-aðgang og var ráðgátan um hver væri á bakvið @BoringGylfiSig þar með leyst. 
Eigandi Instagram-aðgangsins, og þar með maðurinn á bakvið nafnlausa Twitter-aðganginn, er leikarinn Þórir Sæmundsson en Þórir hafði verið virkur á samskiptamiðlinum til ársins 2016, þegar hann tilkynnti fylgjendum sínum að hann væri hættur á Twitter.


Aðgangurinn stofnaður stuttu eftir brottrekstur úr Þjóðleikhúsinu 

Athygli vekur að nafnlausi aðgangurinn var stofnaður stuttu eftir að Þóri var vikið frá störfum í Þjóðleikhúsinu eftir að hafa sent typpamynd af sér til samstarfskonu í leikhúsinu en Vísir fjallaði um málið á sínum tíma. 

Sjá einnig: Rekinn úr Þjóðleikhúsinu vegna typpamyndar

Áður hafði leikhúsinu borist nafnlaus ábending um að fimmtán ára stúlka hefði fengið ósiðlegar myndir frá Þóri í skilaboðum á Twitter og birtu margar stúlkur í kjölfarið skjáskot af samskiptum sínum við hann. Eftir að í ljós hefur komið að Þórir er maðurinn á bakvið aðganginn hafa fleiri stúlkur birt skjáskot og sett í samhengi við nafnlaus tíst hans. 

Fyrir viku síðan tjáði Þórir sig um nafnleyndina á Twitter og sagðist oft hafa rekist á fólk á förnum vegi sem hann ætti samskipti við á Twitter. Hann hefði gaman af því á sama tíma og honum þætti það erfitt.
Í dag var ráðgátan leyst og steig Þórir fram sem maðurinn á bakvið @BoringGylfiSig. 


Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Þóri Sæmundssyni í dag án árangurs.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.